Hávær þögn úr stjórnarráðinu

Ríkisstjórnin hefur sýnt fullkomið tómlæti, skeytingarleysi og í rauninni algjöran  dónaskap í samskiptum sínum við sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra. Að virða að vettugi allar beiðnir um fundi, svara ekki erindum og fundum og gefa þannig kjörnum fulltrúum íbúa Norðurlands vestra langt nef með þessum hætti, er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Þetta er enn makalausara vegna þess að stjórnvöld stæra sig af því að hafa bætt stjórnsýsluna með öllu sínu mikla brölti með stjórnarráðið.

Hvað er átt hér við. Förum aðeins yfir samskiptasögu sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra og ríkisstjórnarinnar.

Svöruðu ekki bréfum kjörinna fulltrúa íbúanna

Þann 21. nóvember 2011 óskuðu sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra eftir fundi og samstarfi við ríkisstjórnina um sértækar aðgerðir vegna byggðavanda sem sannarlega er til staðar á svæðinu og tölur um fólksfækkun færa okkur heim sanninn um. Þegar ekkert svar hafði borist tveimur mánuðum síðar, 31. janúar 2012, var málið ítrekað, með bréfi til forsætisráðherra.

Í febrúar árið 2012 tók ég þetta mál upp á Alþingi og spurði forsætisráðherrann eftir þessu. Þá fyrst var haldinn óformlegur fundur með sveitarstjórnarmönnunum um málið. Sérstakur fundur var síðan haldinn með fjórum ráðherrum 20. mars 2012. Í framhaldi af þessu  lögðu sveitarstjórnarmennirnir  fram hóflegar tillögur  í þágu byggðanna, sem ætlunin var að einstök ráðuneyti mundu skoða. Þess var sérstaklega gætt að hafa tillögurnar þannig að þær leiddu ekki til mikils kostnaðar, enda öllum ljóst að þröngt er í búi ríkissjóðs.

Það var svo í tölvupósti 21. júlí 2012 sem sveitarstjórnarmönnunum var gefinn kostur á að koma með ábendingar um svör ráðuneytanna. Því miður voru svörin  ákaflega rýr; það er að segja þau þeirra sem ekki voru beinlínis neikvæð. Síðan hefur ekkert gerst þó sveitarstjórnarmenn hafi gengið eftir svörum og þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn hafi verið í sambandi við ráðuneytin. Það hefur sem sagt nákvæmlega ekkert gerst. Ekkert. Engin svör gefin, ekki haft samband, hvergi vottar fyrir hinni minnstu viðleitni til þess að virða hina kjörnu fulltrúa almennings á Norðurlandi vestra viðlits.

Furðuleg framkoma

Það er núna liðið eitt og hálft ár síðan sveitarstjórnarmennirnir hófu þessa málaleitan og svörin eru nánast engin. Það var í fyrstunni  ekki hirt um að svara beiðnum þeirra um fundi og nú berst ekkert svar um það hver afstaða ríkisstjórnarinnar er. Því er eðlilegt að spurt sé: Hvernig stendur á þessu? Er það plagsiður í ráðuneytum að koma þannig fram við þá sem eiga erindi við ráðuneytin eða er þetta undantekning? Er kannski talin ástæða til að taka sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra einhverjum sérstökum tökum? Er ekki ætlunin að svara þeim með neinum hætti? Stendur ekki til að bregðast við ábendingum þeirra og óskum?

Þessara spurninga spurði ég forsætisráðherra sl.fimmtudag á Alþingi. Því miður var þar einnig fátt um svör. En þögnin er stundum hávær og í henni felast í þessu tilviki skýr skilaboð. Ekkert verður aðhafst. Einskis er að vænta fyrir íbúa á Norðurlandi vestra. Í þeim efnum talar þögnin úr stjórnarráðinu hátt og snjallt  til íbúa Norðurlands vestra.

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir