Gul viðvörun í dag en Haustkálfar boða milt haust
Nú hefur Veðurklúbburinn á Dalbæ tekið aftur til starfa eftir sumarfrí og segir í skeyti til fjölmiðla að nýr starfsmaður hafi tekið við stjórn klúbbsins. Þá kemur einnig fram að með nýju fólki megi búast við breytingum og nýjungum. Jákvætt er að spáð er mildum október með suðlægum áttum.
Í fundargerð klúbbsins frá 5. okt. sl. segir:
„Núna 5. október hittust sjö félagar í Veðurklúbbi Dalbæjar eftir langt sumarfrí til að ráða ráðum sínum. Ekki var sérstaklega farið yfir veðrið undanfarið nema að því leyti að núna um miðjan september síðastliðinn komu svokallaðir Haustkálfar, en þeir boða frekar milt haust.
Enda kemur það heim og saman við draum eins félagans og tunglkomu þann 6. október að október verði mildur með suðlægum áttum, en þó mögulega með einhverri rigningu eða éljum sem stoppa samt stutt við í byggð.“
Með kveðjum frá Veðurklúbbnum á Dalbæ leynast að þessu sinni tvær skemmtilegar vísur:
Draumar geta veður vitað,
er væta öfgakennd.
En verst er þó með orðum litað
að búa þarna í Grend.
/B.J.
Næsta vísa er trúlega kveðin á Völlum í Svarfaðardal 13. september 1841 eftir því sem segir í Bréfi Jónasar til Brynjólfs Péturssonar 8. október 1841. (Sjá: Ritverk Jónasar Hallgrímssonar II. bindi. Bréf og dagbækur, bls. 111–112).
Veðrið er hvurki vont né gott,
varla kalt og ekki heitt,
það er hvurki þurrt né vott,
það er svo sem ekki neitt.
Gul viðvörun í dag
Annars er það að frétta af Veðurstofu Íslands að varað er vondu veðri víða á landinu í dag. Á Norðurlandi vestra er gul veðurviðvörun í gildi þar sem austan hvassviðri eða stormur ræður ríkjum og segir í spánni að búast megi við norðaustan 15-23 m/s með hviðum um 35 m/s og takmörkuðu skyggni vegna rigningar, einkum á fjallvegum og í vindstrengjum við fjöll, t.d. í Skagafirði. Getur verið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi og er fólk er hvatt til að ganga frá lausum munum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.