Haukur Skúlason hættur

Haukur Skúla á hliðarlínunni í leik í sumar. Mynd: ÓAB.
Haukur Skúla á hliðarlínunni í leik í sumar. Mynd: ÓAB.

Haukur Skúlason er hættur sem þjálfari meistaraflokks Tindastóls karla í fótbolta en greint var frá því í dag í hlaðvarpinu Ástríðan sem fjallar um neðri deildir Íslandsmóts karla. Atli Jónasson mun taka við Hauki út tímabilið en hann var áður aðstoðarþjálfari liðsins. 

Óskar Smári Haraldsson, einn af þjálfurum meistaraflokks Tindastóls kvenna og leikmaður meistaraflokks karla var gestur hlaðvarpsins og hafði hann þetta um málið að segja þegar hann var spurður út í það. 
„Sameiginleg ákvörðun stjórnar og Hauks já, hann er ekki lengur þjálfari. Það eru engin illindi hjá Hauk út í félagið, stjórnina eða neitt. Það sem ég veit af, þetta gerðist bara í gær, ég get alveg sagt ykkur það, það var bara tekinn fundur og talað um það hvað væri það besta fyrir félagið. Við erum í þeirri stöðu að við erum á leiðinni niður í fjórðu deild og fyrir mér að Tindastóll sé á leiðinni niður í fjórðu deild er bara hræðilegt."

Sunna Björk Atladóttir, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls staðfesti þetta í samtali við Feyki.
"Ég get staðfest að Haukur Skúlason hefur stigið til hliðar sem þjálfari meistaraflokks karla og Atli Jónasson tekið við liðinu. Við þökkum Hauki fyrir vel unnin störf og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni."

Lið Tindastóls hefur verið í miklu brasi í sumar og eru að berjast fyrir lífi sínu í þriðju deildinni en þeir sitja á botni deildarinnar með 14 stig þegar þrír leikir eru eftir af mótinu. Næsti leikur Tindastóls er útileikur gegn Sindra á Hornafirði og þar dugir ekkert nema sigur ef Stólarnir ætla að halda sér uppi í deildinni.

 

/SMH


 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir