Hátíð gleði og þakkargjörðar
Hin árlega Hólahátíð fór fram dagana 12.-13. ágúst á Hólum í Hjaltadal. Boðið var upp á fjölbreytta menningardagskrá alla helgina og lauk henni með athöfn og hátíðardagskrá í Hóladómkirkju. Að sögn sr. Gísla Gunnarssonar, vígslubiskups á Hólum, var ágætis mæting. „120 manns voru í messukaffinu á sunnudag sem var á milli messu og hátíðardagskrár. Hátt í fjörtíu manns voru í útgáfuhátíð sálmabókanna á laugardag. Tveir gengu upp í Gvendarskál,“ sagði Gísli þegar Feykir leitaði frétta.
Hátíðin hófst með pílagrímsgöngu klukkan tíu á laugardagsmorgni en 28 manns gengu yfir Heljardalsheiði. Gengið var frá Atlastöðum í Svarfaðardal. „Gangan gekk vel en veðrið var ekki upp á það besta, þoka og fremur svalt,“ sagði Gísli. „Sigurður Sigurðsson á Sleitustöðum ferjaði hópinn á fjárvagni yfir Kolbeinsdalsá og ók heim til Hóla. Allir voru ánægðir með gönguna og fóru í sund áður en boðið var til kvöldverðar á Kaffi Hólum.“
Hvað fannst þér athygliverðast á Hólahátíð í þetta skiptið? „Ræða Ásgeirs Jónssonar var mjög góð þar sem hann greindi m.a. frá trúarlegri mótun sinni sem hann fékk fyrst og fremst í samskiptum við afa sinn, Bjarna Jónsson. Skagfirski kammerkórinn var með flotta dagskrá og messan var bæði hátíðleg og falleg eins og hægt verður að hlusta á í útvarpinu næsta sunnudag.“
Hvað er Hólahátíð fyrir þér og hver er tilgangurinn með henni? „Hólahátíð er trúar-og menningarhátíð. Tilgangurinn er að rifja upp stórmerkilega sögu Hólastaðar sem var höfuðstaður Norðurlands um aldir. Ég vil jafnframt að Hólahátíð sé hátíð sem kallar saman fólk úr öllu Hólastifti og um leið héraðshátíð Skagfirðinga. Hátíð gleði og þakkargjörðar.“
Hverjar eru elstu minningar þínar frá Hólahátíð? „Elstu minningar mína eru að fara með foreldrum mínum á Hólahátíð en ekki var spurning í huga föður míns að þar væri skildumæting. Man vel eftir ýmsum sem hugsuðu eins, t.d. Dúdda á Skörðugili,“ segir Gísli að endingu.
Myndirnar sem hér fylgja tók ljósmyndari Feykis áður en hátíðarmessa hófst auk þess sem Feykir fékk lánaðar myndir hjá biskupi og þingmanni; Gísla Gunnarssyni og Bjarna Jónssyni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.