Haraldur oftast strikaður út í Norðvesturkjördæmi

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk flestar útstrikanir, eða færslu neðar á sæti á lista, en nokkur annar í Norðvesturkjördæmi eða 69 sinnum í nýliðnum kosningum eftir því sem fram kemur í skýrslu yfirkjörstjórnar kjördæmisins til landskjörstjórnar og Hagstofu Íslands. Næstflestar voru hjá Stefáni Vagni Stefánssyni Framsóknarflokki, 63 og 46 hjá Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins og fv. ráðherra.

Þegar útstrikanir eru skoðaðar sem hlutfall af atkvæðatölu hvers lista fyrir sig hrekkur Bergþór Ólason upp í fyrsta sætið með 2,27% þeirra er greiddu Miðflokknum atkvæði eða 29 útstrikanir, Bjarni Jónsson, Vinstri grænum, í öðru með 38 útstrikanir eða 1,92% og Haraldur Benediktsson í því þriðja með 1,77% greiddra atkvæða listans. Á hæla honum koma svo Stefán Vagn með 1,42% og Þórdís Kolbrún með 1,18.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Framsóknarflokki fékk 19 útstrikanir (0,43%), Halla Signý Kristinsdóttir 7 útstrikanir (0,16%) sem telst minnsta hlutfallið og Eyjólfur Ármannsson var strikaður fimm sinnum út eða færður neðar á lista sem gerir 0,33% þeirra sem kusu Flokk fólksins í Norðvesturkjördæmi.

Alls vildu 52 hækka Lilju Rannveigu upp í fyrsta sæti Framsóknar, 44 vildu Harald í toppsætið hjá Sjálfstæðisflokki og 55 vildu sjá Höllu Signýu færða upp í annað sæti Framsóknar en 11 að hún myndi leiða listann.

Samkvæmt kosningalögum má kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs og setur þá tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til. Ef kjósandi vill hins vegar hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir