Haraldur kemur undan feldi og þiggur annað sætið

„Ef einhver vill vita. Annars er verið að slá í dag.“ skrifar Haraldur Benediktsson á Facebook-síðu sína í dag og deilir frétt Skessuhorns um að hann ætli að þiggja 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar sem fram fara í haust. Eins og áður hefur komið fram laut Haraldur í lægra haldi fyrir Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur um efsta sæti listans og tók hann sér nokkra daga til að íhuga hvort hann sætti sig við sætaskiptin.

 

„Í ljósi þess að ég stefndi á fyrsta sætið í prófkjörinu var ég ekki sannfærður um hvort ég tæki annað sætið, gæfi nýjum oddvita sviðið óskert. Vildi í það minnsta hugsa minn gang og heyra hljóðið í flokksforystunni og baklandi mínu. Ég hef á síðustu dögum meðtekið gríðarlegan fjölda áskorana um að þiggja annað sætið á listanum. Þar eiga í hlut bæði dyggir stuðningsmenn mínir í gegnum tíðina og einnig óflokksbundið fólk sem annt er um stöðu landsbyggðarinnar. Ég get því ekki litið framhjá þeirri staðreynd að þrátt fyrir allt virðist ennþá vera eftirspurn eftir störfum mínum á þingi. Ég get því upplýst að ég lýsi mig tilbúinn í framboðsslaginn,“ sagði Haraldur bóndi á Vestra-Reyni, og þingmaður í samtali við Skessuhorn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir