Haraldur Benediktsson hverfur af þingi og tekur við bæjarstjórastónum á Akranesi
Haraldur Benediktsson hefur verið ráðinn bæjarstjóri Akraneskaupstaðar en hann hefur verið alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi frá árinu 2013. Alger einhugur ríkir í bæjarstjórn um ráðningu Haralds sem segir Akranes vera eitt mest spennandi sveitarfélag landsins.
„Haraldur hefur þekkingu og reynslu sem við bæjarfulltrúar erum fullviss um að muni nýtast vel í starfi bæjarstjóra, Akraneskaupstað og samfélaginu hér á Akranesi til heilla. Alger einhugur ríkir í bæjarstjórn um ráðningu Haralds og við erum þess fullviss að hann muni veita bæjarfélaginu öfluga forystu á áframhaldandi uppgangstímum bæjarins,“ segir Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar Akraness.
Á hemasíðu Akranesskaupstaðar kemur fram að Haraldur hafi síðastliðinn áratug verið alþingismaður fyrir Norðvesturkjördæmi, setið í atvinnuveganefnd, fjárlaganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Hann hefur verið stjórnarformaður Orkusjóðs og veitt stjórn Fjarskiptasjóðs formennsku á síðastliðnum árum. Haraldur hefur að auki verið formaður fjölda nefnda og stýrihópa á vegum stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands.
„Ég hlakka til að takast á við verkefnin með öflugum hópi bæjarstjórnar og starfsmanna Akraneskaupstaðar,“ segir Haraldur sem hefja mun störf á næstu vikum.
„Það er sannarlega heiður að vera valinn í starf bæjarstjóra í kröftugasta bæjarfélagi í Norðvesturkjördæmi. Ég hlakka til að tilheyra öflugu teymi bæjarstjórnar og starfsmanna Akraneskaupstaðar. Nú er þingmennska senn á enda. Frá þeim tíma á ég fjársjóð reynslu og þekkingu - en ekki síst vináttu um allt land. Ég er afar sáttur og stoltur af þeim tíma. Takk öll sem ég hef unnið með á þeim vettvangi,“ skrifar Haraldur á Facebooksíðu sína.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.