Hannes og Björgvin áfram hjá Stólunum
Enn berast fréttir úr stássstofunni á Sjávarborg en búið er að ganga frá samningi við þá Hannes Inga Másson og Björgvin Hafþór Ríkarðsson að þeir leiki áfram með Stólunum næsta tímabil í körfunni.
Hannes Ingi er framherji og án vafa mikið efni sem á eftir að reynast Stólunum vel með fenginni reynslu. Hann er 21 árs, 192 sm á hæð og hefur mikla yfirferð og úthald á vellinum. „Mér líst mjög vel á liðið. Það er búið að styrkjast og það er jákvætt og ég strax farinn að hlakka til næsta tímabils. Samkeppnin er góð, hún ýtir manni ennþá meira áfram í því sem maður er að gera!“ sagði Hannes Ingi er Feykir hafði samband við hann í gær.
Björgvin aftur á móti er bakvörður sem skoraði 11 að meðaltali í leik með Stólunum í vetur. Hann reyndist drjúgur í mörgum leikjum og m.a, í síðustu sex leikjum skoraði hann 22 stig gegn Grindavík, 18 og 22 stig gegn Keflavík í úrslitarimmunni. „Liðið verður mjög spennandi á næsta tímabili og er ég mjög spenntur fyrir því. Er mjög ánægður að kjarninn er áfram sem var á síðasta tímabili,“ segir Björgvin. Hann segist leiðast það að missa Svabba út en aftur á móti verði gaman að fá Arnar og Axel á Krókinn. „Mér leið mjög vel í Tindastólsbúningnum í vetur og hugsa ég að næsti vetur verði ekki síðri. Topp klúbbur og topp liðsfélagar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.