Halldór B. Gunnlaugsson er nýr framkvæmdastjóri Farskólans

Halldór B. Gunnlaugsson. MYND FARSKÓLINN
Halldór B. Gunnlaugsson. MYND FARSKÓLINN
Á vef farskólans segir að  Halldór Brynjar Gunnlaugsson, sem starfað hefur sem verkefnastjóri í Farskólanum frá árinu 2011, hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Farskólans.
 
Halldór er fæddur árið 1969 og er alinn upp á Sauðárkróki. Hann á þó ættir að rekja í sveitina, nánar tiltekið í Hegranesið, þar sem hann býr í dag ásamt fjölskyldu sinni.
 
Halldór lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Árið 1998 lauk hann B.Ed prófi frá Háskólanum á Akureyri og síðar B.Sc gráðu frá sama skóla í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði. Árið 2009 lauk hann meistaranámi í markaðsfræði frá Aarhus University. Halldór hefur einnig sótt fjölda námskeiða í gegnum tíðina, sem meðal annars tengjast störfum hans í Farskólanum.
 
Í Farskólanum hafa helstu verkefni Halldórs verið að skipuleggja og hafa umsjón með fræðsluáætlunum fyrirtækja og stofnana. Má þar nefna fræðsluáætlun fyrir sveitarfélagið Skagafjörð og fræðsluáætlun fyrir HSN – heilbrigðisstofnun Norðurlands, í samstarfi við tvær aðrar fræðslumiðstöðvar á Norðurlandi. Halldór hefur einnig haldið utan um ótalmörg námskeið fyrir stéttarfélög á starfssvæði Farskólans.
 
Halldór hélt meðal annars utan um vottuðu smiðjuna Beint frá býli og í kjölfarið skipulagði hann fjölda námskeiða fyrir bændur og aðra áhugasama á Norðurlandi vestra í samstarfi við Vörusmiðju Biopol á Skagaströnd, en þar fór öll verkleg kennsla fram.
 
Vorið 2024 fékk Farskólinn samþykkta svokallaða Erasmus aðild í flokknum fullorðinsfræðsla. Aðildin nær til næstu þriggja ára. Halldór vann að styrkumsókn fyrir hönd Farskólans. Framundan er ferð til Ítalíu með hóp bænda, sem sótt hafa námskeið Farskólans og teljast til smáframleiðenda á svæðinu.
 
Halldór tók við starfinu 1. september síðstliðinn. Auk framkvæmdastjórnar mun Halldór stýra áfram hinum ýmsu fræðsluverkefnum.
 
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir