Hæstur meðalhiti sjálfvirkra stöðva á Norðurlandi vestra á Brúsastöðum
Íslenski júlímánuðurinn var mjög hlýr og þurr, sérstaklega á Norður- og Austurlandi og var meðalhitinn í þeim landshlutum víða sá hæsti frá upphafi mælinga. Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að sólskinsstundir hafi aldrei mælst eins margar í júlímánuði á Akureyri á meðan þungbúnara hafi verið suðvestanlands. Á Norðurlandi vestra reyndist meðalhiti sjálfvirkra stöðva hæstur á Brúsastöðum í Vatnsdal, næsthæstur á Sauðárkróksflugvelli og Nautabú í fyrrum Lýtingsstaðahreppi er svo í þriðja sæti.
Meðalhiti mánaðarins var hæstur á mönnuðu stöðinni á Akureyri 14,3 stig en meðalhiti frá áramótum 4,4 stig. Það er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 20. sæti á lista 141 ára.
Meðalhiti og vik (°C) í júlí 2021. Tafla af Vedur.is.
Á lista sjálfvirkra stöðva Veðurstofunnar mældist hæsti meðalhitinn á Torfum í Eyjafjarðarsveit, 14.27 gráður, hæst 26.8 og lægst 2.0 gráður. Á Brúsastöðum var meðalhitinn 13.01 gráða þar sem hitinn fór hæst 22.3 stig en lægst í 2.2. Á Sauðárkróksflugvelli fór hitinn hæst í 25.1 gráðu en lægst 3.6 og meðalhiti reyndist 12.87 en sjónarmunur var á meðalhita á Nautabúi þar sem hann mældist 12.85 gráður. Hæst mældist hann 23.4 gráður en lægst 4.3.
Það er hins vegar veðurstöð við Miðsitju í Akrahreppi sem toppar mælistöðvar Vegagerðarinnar en þar mældist meðalhitinn í júlí 13.34 gráður, hæstur 24.7 en lægstur 4.1 gráða.
Sjá nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.