Gul veðurviðvörun og óvissustig á Tröllaskaga

Þæfingsfærð er nú á Siglufjarðarvegi samkv. heimasíðu Vegagerðarinnar, snjóþekja á Þverárfjalli og hálka á flestum leiðum norðanlands. Lýst var yfir óvissustigi í dag vegna snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi og Ólafsfjarðarmúla. Unnið er að mokstri á Siglufjarðarvegi, Þverárfjalli og Svalbarðsströnd að Grenivík en Víkurskarð er lokað vegna snjóa. Snjókoma er á Öxnadalsheiði og éljagangur á Vatnsskarði líkt og víða á Norðurlandi vestra og er vegfarendum bent á að hált er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku auk éljagangsins en vel fært öllum bílum.

Gul veðurviðvörun er í gildi fyrir Strandir og Norðurland vestra og segir í athugasemd veðurfræðings Veðurstofu Íslands að ákveðin norðaustanátt verði ríkjandi í dag með ofankomu, einkum norðan og austanlands. Minni úrkoma á morgun, en áfram stíf norðaustanátt.

„Snjóað hefur og mun snjóa í köldu lofti með léttum snjó sem fer auðveldlega af stað og takmarkar skyggni mikið. Skafrenningur og versnandi akstursskilyrði. Verst veður vestantil og á Ströndum. Ferðafólki er bent á að fara varlega og fylgjast með veður og snjóflóðaspám,“ segir á vedur.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir