Guðrún og Guðmundur loka Efnalaug Sauðárkróks
Síðast liðinn föstudag var síðasti vinnudagur í Efnalaug Sauðárkróks en fyrirtækið hefur nú hætt starfsemi eftir áratuga rekstur. Síðustu þrjá áratugina hafa þau hjón Guðrún Kristófersdóttir og Guðmundur Óli Pálsson staðið vaktina sem nú er á enda. Boðið var til veglegs kaffihlaðborðs í morgunpásunni og margir sem litu inn í tilefni tímamótanna.
Aðspurður um hvenær þau eignuðust fyrirtækið, svarar Guðmundur hugsi: „Ja það er ljótt ef ég man það ekki, jú, 1. maí, held ég ´94 sem við keyptum af Pétri Valdimarssyni. Þetta eru tæp þrjátíu ár.“
Guðmundur segir að fyrirtækið hafi verið til sölu í fjögur ár en fáir sýnt áhuga og ekkert sem hafi verið í hendi, eins og sagt er. Seinustu misseri hafa um þrjú og hálft ársverk verið í boði og segir Guðmundur að sér þykir verst að þessi starfsemi skuli fara úr héraði.
Sigurður Pálsson segist vera gamall kostgangur í fyrirtækinu,
kemur í morgunkaffi og ræðir heimsmálin sem í sumum tilvikum eru leyst.
„Ég hef engar áhyggjur af efnalauginni sem slíkri, fólk bjargar sér, verst finnst mér að störfin skuli fara úr héraði. Ég hef svo sem ekkert fleira að segja en við höfum blessunarlega verið laus við öll óhöpp og gengið vel. Það reyndar sprakk gufuketillinn í fyrra en án vandræða, sem betur fór,“ segir Guðmundur sem segir ekkert liggja á þegar hann er spurður um framhaldið. „Ég hugsa það bara þegar það nálgast. Það er enginn vandi að losna við húsnæðið. Ég þakka okkar viðskiptavinum fyrir viðskiptin í gegnum tíðina. Sumir hafa komið einu sinni og margir ítrekað. Sumir verið tryggir,“ segir Guðmundur í lokin og óskar öllum gleðilegt nýs árs.
Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru sl. föstudag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.