Guðni Þór og Óskar Smári þjálfa Stólastúlkur

Guðni Þór og Óskar Smári. MYND: ÓAB
Guðni Þór og Óskar Smári. MYND: ÓAB

Gengið var frá samningum sl. sunnudag við nýtt þjálfarateymi kvennaliðs Tindastóls í knattspyrnu sem mun spila í efstu deild í fyrsta sinn í sumar. Teymið skipa þeir Guðni Þór Einarsson og Óskar Smári Haraldsson. Guðni, sem er Króksari, hefur þjálfað kvennalið Tindastóls síðustu þrjú ár í félagi við Jón Stefán Jónsson sem ekki gat haldið áfram þjálfun Stólastúlkna. Guðni fær nú gamlan Tindastólsfélaga til liðs við sig, Óskar Smára, sem líkt og fyrirliði Tindastólsliðsins er frá Brautarholti. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir þá félaga eftir undirskrift samninga í Húsi frítímans.

Guðni segist hrikalega ánægður með að fá Óskar í hópinn. „Óskar er metnaðarfullur þjálfari og er frábær viðbót í hópinn okkar. Honum fylgir mikill kraftur og ferskleiki og það hjálpar mikið að hann hefur starfað í efstu deild síðustu ár. Hann þekkir liðin og deildina vel og sú þekking mun reynast okkur mjög dýrmæt. Ég hlakka mikið til að vinna með Óskari í sumar,“ segir Guðni. 

Liðsheildin ótrúleg

Óskar Smári er mjög spenntur fyrir verkefninu. „Ég á von á bráðskemmtilegri deild þar sem allt getur gerst. Ef við höldum í okkar gildi þá er ég mjög bjartsýnn. Einnig á ég von á því að samstarf okkar Guðna verði gott, við náðum vel saman innan vallar fyrir nokkrum árum og býst ég við því sama á hliðarlínunni!“ Þegar Feykir spyr hann hvað hann komi með að borðinu sem þjálfari segir hann: „Fyrst og fremst tel ég mig vera mjög metnaðarfullan. Með nýjum þjálfara koma oft ferskir vindar, sem ég vonast til að komi með mér í mitt starf. Ég er með ákveðna reynslu úr efstu deildinni þar sem ég var aðstoðarþjálfari hjá Kristjáni Guðmundssyni í Stjörnunni á síðustu leiktíð. Þar hafði ég meðal annars það hlutverk að leikgreina andstæðingana. Þannig að ég tel mig þekkja liðin og leikmenn deildarinnar ágætlega. Fyrir tveimur árum fór ég í Garðabæinn með það markmið að eflast sem þjálfari. Mér finnst mér hafa tekist það en geri mér þó fulla grein fyrir því að ég datt í lukkupottinn að hafa fengið þann skóla sem ég fekk hjá Kristjáni Guðmundssyni síðustu tvö ár. Þannig að ég tel mig hafa fullt fram að færa en geri mér einnig grein fyrir því að ég er að feta í risa fótspor sem Jón Stefán skilur eftir sig.“

Hvert heldur þú að sé lykilatriðið til að tryggja liði Tindastóls sæti áfram í efstu deild? „Ég held að ef allir leggjast á eitt þá getum við gert þetta sumar að mjög góðu og skemmtilegu sumri. Vissulega verður þetta erfiðara en undanfarin ár en ég hefði aldrei tekið þetta að mér með Guðna ef ég hefði ekki trú á stelpunum og verkefninu. Liðsheildin sem er í þessu liði er ótrúleg og hlakka ég til að fá að vera hluti af henni,“ segir Óskar Smári.

15-18 stelpur á æfingum

Guðni segir að æfingar hafi farið í gang í byrjun desember og hafi gengið vel. „Við höfum verið nokkuð heppin með veðurfar og ekki margar æfingar sem hafa fallið niður. Við höfum verið með um 15-18 stelpur á hverri æfingu. Í síðustu viku bættust svo þær Mur og Jackie við hópinn. Að fá þær inn svo snemma á undirbúningstímabilinu er mjög sterkt og hefur mikið að segja í okkar undirbúningi fyrir tímabilið.“

„Ég held að ef allir leggjast á eitt þá getum við gert þetta sumar að mjög góðu og skemmtilegu sumri,“ segir Óskar Smári þegar hann er spurðu hvað þurfi til að lið Tindastóls haldi sæti sínu í efstu deild. „Vissulega verður þetta erfiðara en undanfarin ár en ég hefði aldrei tekið þetta að mér með Guðna ef ég hefði ekki trú á stelpunum og verkefninu. Liðsheildin sem er í þessu liði er ótrúleg og hlakka ég til að fá að vera hluti af henni.“

Er reiknað með einhverjum viðbótum við þjálfarateymið? „Já, vonast er til að ganga frá ráðningu á aðstoðarþjálfara og styrktarþjálfara. Með því viljum við auka fagmennsku í kringum liðið og ég lít á það sem mikilvægt skref i að bæta umgjörðina í kringum liðið. Verkefnið er risastórt sem við erum að ráðast í og með sterku teymi þjálfara munum við okkar leikmönnum upp á gott umhverfi til að bæta sig enn frekar,“ segir Guðni.

Eruð þið eitthvað farnir að skoða með aðra leikmenn og hverjar reiknið þið með að áherslurnar verði? „Já, við erum búnir að vera skoða um. Hinsvegar viljum við fá réttu týpurnar af leikmönnum og karakterarnir þurfa að vera réttir. Við erum að horfa á gæði frammyfir magn,“ segir Óskar Smári.

Ragnheiður og Haddi spá fyrir góðu samstarfi systkinanna

Kjarnafæðimótið hófst núna um helgina og í fyrsta leik sigraði Tindastóll B-lið Þórs/KA nokkuð örugglega. „Mótið er æfingamót liða á Norður- og Austurlandi og eru flestir leikir spilaðir í Boganum á Akureyri,“ segir Guðni. „Við vonumst til að geta fært amk einn leik á okkar heimavöll, vonandi fyrir framan okkar frábæra stuðningsfólk.

Hvernig leggst komandi tímabil í ykkur? „Ég er fullur tilhlökkunar fyrir tímabilinu . Við gerum okkur fulla grein fyrir því að stökkið er risastórt og mikil vinna er framundan í að móta liðið en hver einasti leikmaður liðsins er tilbúin að leggja þessa miklu vinnu á sig. Þannig að spennandi tímar eru framundan,“ segir Guðni.

En Óskar Smári, hvernig líst þér á að fara að þjálfa og stjórna Manni ársins 2020 á Norðurlandi vestra? „Mér líst mjög vel á það. Bryndís á þennan titill skilið, hefur verið frábær fyrirliði og fyrirmynd undanfarin ár og það breytist ekki með minni komu. Ragnheiður og Haddi í Brautarholti spá fyrir góðu samstarfi og það boðar á gott get ég sagt þér!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir