Guðni hvetur stuðningsmenn Stólastúlkna til að fjölmenna á völlinn í kvöld

Nú þurfa Stólastúlkur að finna neistann á ný. MYND: ÓAB
Nú þurfa Stólastúlkur að finna neistann á ný. MYND: ÓAB

Það verður spilað í Pepsi Max deildinni á Sauðárkróksvelli í kvöld en lið Tindastóls og Selfoss mætast kl. 18:00 í mikilvægum leik fyrir bæði lið. Selfoss þarf að sigra til að koma sér upp að hlið Vals og Breiðabliks í efstu sætum deildarinnar en lið Tindastóls, sem nú vermir botninn, gæti með sigri komist upp að stórum hópi liða sem berst fyrir sæti sínu í deildinni. Feykir heyrði hljóðið í Guðna Þór Einarssyni í þjálfarateymi Tindastóls í morgun.

„Leikurinn leggst bara mjög vel í okkur,“ segir Guðni Þór aðspurður um leikinn og andstæðingana. „Selfoss-stúlkur byrjuðu mótið afar vel og voru á toppnum lengi vel en hafa aðeins misst flugið og hafa tapað þremur leikjum í röð núna. Selfoss er mjög vel mannað lið og einn þeirra sterkasti leikmaður er Hólmfríður Magnúsdóttir sem á yfir 100 landsleiki fyrir Ísland. Þær eru með kraftmikinn framherja, Brenna Lovera, sem er markahæst í deildinni, og þá er Barbara Sól  frábær leikmaður sem hefur verið að fá tækifæri með A-landsliðnu. Við reiknum með hörkuleik í kvöld þar sem bæði lið þurfa mikið á öllum þremur stigunum að halda.“

Guðni segir að lið Tindastóls hafi verið nokkuð óheppið upp á síðkastið, verið vel inni í leikjunum en ekki náð að sækja stig. „Við vonumst til að fólk fjölmenni í kvöld í stúkuna og hvetji liðið áfram - Við þurfum svo sannarlega á ykkar stuðningi að halda í kvöld.“

Hvernig er standið á hóopnum, eru allar stelpurnar til í slaginn? „Aldís María er í leikbanni eftir rauða spjaldið í síðasta leik. Við höfum verið að glíma við meiðsli hjá nokkrum leikmönnum en flestar eru búnar að ná sér að mestu leiti.

Stendur til að styrkja hópinn þegar leikmannaglugginn opnar? „Já, það mun koma liðsstyrkur. Við teljum okkur þurfa að auka breiddina í hópnum fyrir seinni umferðina,“ segir Guðni Þór að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir