Grindvíkingur reyndust sterkari í HS Orku-höllinni
Tindastóll og Grindavík mættust í HS Orku-höllinni suður með sjó í gærkvöld en bæði lið voru með 14 stig fyrir leik. Leikurinn var að mörgu leyti ágæt skemmtun og bæði lið spiluðu ágætan sóknarbolta en margir söknuðu þess að Stólarnir spiluðu alvöru varnarleik. Heimamenn náðu tíu stiga forystu í fyrsta leikhluta og það bil náðu gestirnir aldrei að brúa þó oft hafi aðeins vantað herslumuninn. Lokatölur voru 101-93 fyrir Grindavík.
Þetta var aðeins þriðji leikur Tindastóls á sjö vikum en Covid hefur valdið miklum frestunum á leikjum í Subway-deildinni og höfðu heimamenn í Grindavík ekki farið varhluta af því. Það mátti því búast við einhverju riði hjá leikmönnum en það sást nú ekki á sóknarleiknum. Lið Grindavíkur fór vel af stað og komst í 14-7 eftir þriggja mínútna leik en rúmri mínútu síðar var staðan orðin 16-14. Heimamenn náðu síðan góðum kafla og leiddu með tíu stigum, 34-24, að loknum fyrsta leikhluta. Siggi Þorsteins fékk sína þriðju villu eftir 12 mínútna leik en hann átti frekar dapran leik að þessu sinni, virtist aldrei komast í takt við leikinn. Munurinn var yfirleitt átta til tólf stig í öðrum leikhluta en Zoran Vrkic átti ágæta innkomu af bekknum en á lokamínútum fyrri hálfleiks hótuðu heimamenn að stinga af en Stólarnir náðu að standa fyrir sínu þegar liðin buðu upp á sitthvora þristasúpuna. Grindavík komst í 54-40 þegar tvær mínútur var til hálfleiks en Stólarnir klóruðu duglega í bakkann með þremur þristum; fyrsta frá Bess, síðan skutlaði Axel niður einum klassískum úr horninu og á lokasekúndunum minnkaði Bess muninn í sjö stig með skoti af löngu færi. Staðan 56-49 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var ágætis skemmtun og bæði lið buðu upp á hressilegan sóknarleik. Heimamenn voru þó alltaf skrefinu á undan og munurinn oft þetta fjögur til átta stig. Stólarnir gerðu nokkur ágæt áhlaup en Grindvíkingar náðu jafnan að svara fyrir sig með þristi en gestunum gekk illa að hemja heimamenn fyrir utan 3ja stiga línuna. Alls setti lið Grindavíkur nið 15 3ja stiga skot og voru með 52% nýtingu og það er alltaf á brattan að sækja þegar andstæðingurinn nær að skjóta svona vel. Heimamenn fengu að auki 30 vítaskot í leiknum á móti 17 vítum gestanna. Staðan að loknum þriðja leikhluta 84-78 og í þeim fjórða fengu Stólarnir séns á að hleypa verulegri spennu í leikinn. Sigtryggur Arnar minnkaði muninn í 90-84 og í kjölfarið fengu Stólarnir tvær sóknir til að kroppa enn frekar í bilið en misnotuðu færin. Í kjölfarið náðu Grindvíkingar góðum kafla, komust í 99-88, og þegar rúm mínúta var eftir setti Bess þrist og staðan 99-93 en Stólarnir náðu ekki að bæta við stigum og sigurinn því heimamanna.
52% 3ja stiga nýting Grindvíkinga
Tindastólsmönnum gekk illa að stöðva EC Matthews (5/7), Ólaf Ólafs (4/6) og Naor Sharabani (5/10) fyrir utan 3ja stiga línuna en þeir virtust geta poppað upp með þrist þegar á þurfti að halda. Javon Bess og Taiwo Badmus áttu fínan leik fyrir Stólana en Bess gerði 30 stig í leiknum, þar af fimm þrista, og hann hirti átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Badmus skilaði 24 stigum, Vrkic 15, Sigtryggur Arnar 13, Pétur og Siggi fjögur hvor og Axel 3. Pétur var með átta stoðsendingar í leiknum og Sigtryggur Arnar sex.
Baldur Þór, þjálfari Stólanna, hafði meðal annars þetta að segja við Vísi.is eftir leik: „Við vorum að vinna leiki því við spiluðum góðan varnarleik, það er ekki staðan núna þegar við fáum á okkur yfir 100 stig. Við þurfum að gera töluvert betur þar. Ég er alveg ánægður með áræðnina og menn eru að leggja sig fram. Við héldum áfram og brotnuðum ekki. Þetta var bara gott Grindavíkurlið sem vann okkur í dag. Þeir hittu svakalega vel og við þurfum að vera betri. Betri í vörn og bæta okkur leik frá leik.“
Enn þurfa stuðningsmenn Tindastóls að bíða eftir heimaleik í Síkinu því núna um helgina mæta strákarnir Blikum í Kópavogi og svo loks er heimaleikur fimmtudaginn 10. febrúar gegn toppliði Njarðvíkur og sunnudaginn þar á eftir kemur lið KR í heimsókn á Krókinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.