Grafnar rjúpnabringur, skarfabringur og ís

Nú eru það Stefán Sveinsson og Hafdís Hrund Ásgeirsdóttir á Skagaströnd sem bjóða okkur upp á sérdeilis góðar villibráðauppskriftir og heimalagaðan ís í eftirrétt. Þau voru matgæðingar Feykis fyrir þremur árum og skoruðu á Aðalheiði Sif Árnadóttur, pylsusala og íþróttafrík og Róbert Frey Gunnarsson lögregluþjón að verða næstu matgæðingar ú Húnavatnssýslu. 

 

 

FORRÉTTUR

Nú þegar rjúpnaveiðar ganga vel og mikið er til af rjúpu er tilvalið að grafa rjúpnabringurnar og nota þær í forrétt.

(Afganginn af rjúpunum má nota í sósu eða súpu.) Fyrst er gerð góð kryddblanda og í hana þarf:

  • 1/2 dl salt
  • 1/2 dl sykur
  • 1/2 msk grófmulin græn piparkorn
  • 1 msk grófmulin svört piparkorn
  • 1 tsk hvítlauksduft
  • 8 mulin einiber
  • 1 tsk timian
  • 1 dl fínsöxuð fersk steinselja
  • 1 dl saxað ferskt dill
  • 1) Blandið þessu öllu vel saman. skerið bringurnar úr rjúpunum og þerrið þær með hreinum klút.
  • 2) Hyljið bringurnar í kryddblöndunni. Þessi skammtur ætti að duga fyrir 500 gr af rjúpnabringum.Gott er að setja bringurnar í glerkrukku með loki eða eitthvað fat sem er hægt er að loka.
  • 3) Krukkan (fatið) með bringunum er sett inn í ísskáp. Bringurnar eru látnar liggja í þessari blöndu í sólarhring. Þeim er snúið tvisvar.

Þegar  bringurnar eru bornar á borð eru þær skornar í örþunnar sneiðar á ská yfir vöðvann með þessum bragðmikla og góða forrétti er gott að hafa maltbrauð og setja á það íslenskt smjör eggjahræru og rifsberjasultu. Ef menn vilja geyma bringurnar þá er bara að skafa það mesta af kryddblönduni af pakka vel inn og geyma inn í ísskáp

 

 

AÐALRÉTTUR
LÉTTSTEIKTAR SKARFABRINGUR

  • Bringur af 3 skörfum
  • Salt og pipar
  • 2 msk. olía
  • blönduð ber

SÓSA

  • 5 dl. sjófuglasoð en notið maltöl í stað vatns
  • 1-2 msk. rifsberjahlaup
  • 30 gr. smjör
  • 30 gr. hveiti
  • 3 dl. rjómi
  • Salt og pipar

 

Hitið soðið og hrærið rifsberjahlaupið saman við. Bræðið smjörið og hrærið hveitið saman við. Notið síðan dálítið af smjörblöndunni til að þykkja sósuna. Sjóðið sósuna í ca 10 mín. bætið þá rjómanum við og sjóðið í 3 mín. í viðbót. Kryddið með salti og pipar ef með þarf.

Hitið ofninn í 180. Úrbeinið skarfabringurnar og kryddið þær með salti og pipar. Hitið olíuna á pönnu og brúnið þær í um 1 mín. hvorum megin. Setjið bringurnar svo í ofninn í 6-8 mín. Takið bringurnar úr ofninum látið standa í 1-2 mín. skerið svo bringurnar þversum í þunnar sneiðar. Hitið á meðan sósuna á pönnuni sem bringurnar voru steiktar á. Raðið síðan sneiðunum á 4 diska, hellið sósunni í kring og skreytið með berjum. Þetta má svo bera fram með bökuðum kartöflubátum, og waldorf salati.

Eftirréttur
Heimalagaður ís með jarðaberjum

  • 6. egg
  • 6. msk.sykur
  • 1. peli rjómi
  • 100 g Síríus rjómasúkkulaði
  • 1. askja jarðaber

Þeytið eggin og sykurinn í hrærivél á miklum hraða svo úr verði freyðandi blanda. Setjið í skál. Þeytið rjómann vel og blandið honum saman við eggjahræruna. Blandið mjög vel og hellið síðan í tvö álform sem eru svona eins og sandkaka í laginu.Setjið í frystir fram að notkun.Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, setjið ísinn í skálar, hellið súkkulaðinu yfir og dreifið jarðaberjum með.

 

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir