Gottveður.is er vísir að nýjum vef Veðurstofunnar
Áhugafólk um veður og veðurspár ætti að vera kátt með nýja vefsíðu Veðurstofunnar – gottvedur.is – sem tekin var í notkun í gær. Í raun er um að ræða fyrsta hluta af nýjum vef Veðurstofunnar en vefurinn er enn í þróun og mun færast undir vedur.is þegar endurnýjun á núverandi vef lýkur. Reikna má með að íbúar í þéttbýli fagni því að veðri í helstu bæjum og þéttbýliskjörnum landsins er gert hátt undir höfði á nýja vefnum.
Einhverjum gæti þótt skondið að vefurinn sé á slóðinni gottveður.is í ljósi þess að fólki finnst nú frekar lítið um gott veður almennt, það skortir í það minnsta ekki veðurviðvaranir síðustu misserin.
Fram kemur í tilkynningu á vedur.is að í þessum fyrsta áfanga sé lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekinn stað. Fyrir utan bætta framsetningu á staðarspám hefur stöðum sem hægt er að fletta upp til að fá veðurspá verið fjölgað verulega og smám saman mun þeim stöðum fjölga enn frekar.
„Núverandi vefur hefur þjónað okkur dyggilega í næstum 20 ár,“ segir Hildigunnur H.H. Thorsteinsson forstjóri Veðurstofu Íslands og því sannarlega um tímamót að ræða. „Það að vefurinn hafi dugað nánast óbreyttur þetta lengi er til marks um gæði hans á sínum tíma, en engu að síður vorum við komin í tækniskuld með vefinn og upplýsingatækniumhverfið sem tengist honum,“ segir hún og bætir við að það sem tekkið hafi verið í notkun núna sé toppurinn á ísjakanum í algjörri endurnýjun á vefumhverfinu. „Mestu breytingarnar sem notendur taka sennilega eftir er að það er miklu betra að nota nýja vefinn í farsíma“, segir Hildigunnur.
Nánar má lesa um nýja vefinn á vedur.is >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.