Golf er stórskemmtileg íþrótt fyrir alla -::- Atli Freyr Rafnsson íþróttastjóri Golfklúbbs Skagafjarðar
Feykir hefur áður sagt fá því að Atli Freyr Rafnsson hafi verið ráðinn íþróttastjóri Golfklúbbs Skagafjarðar og mun annast þjálfun barna og unglinga ásamt því að sinna almennum félagsmönnum. Hann mun einnig skipuleggja komur gestaþjálfara og starfa með þeim við þjálfun, ásamt því að starfa náið með barna- og unglingadeild GSS. Atli Freyr er stúdent frá FNV og var að ljúka fyrsta ári í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur Atli starfað við þjálfun og fleira hjá GSS undanfarin ár. Atli varð við bón Feykis að svara nokkrum spurningum varðandi starfið og golfáhugann.
„Það hefur aldrei verið langt að sækja áhugann á golfi á mínu heimili. Báðir foreldrar mínir eru djúpt sokknir í golf, afi minn er golfkennari og starfaði lengi vel sem slíkur á Sauðárkróki, Dalvík, Mosfellsbæ og Akureyri og ég fékk oft að fljóta með honum á æfingar þar sem hann var að kenna þegar ég var yngri,“ segir Atli en afinn sem hann minnist á er Árni Jónsson, þekktur golfkennari og vinsæll. Það má ætla að Atli muni feta í fótspor forfeðranna því hann hefur unnið ýmis störf á golfvellinum undanfarin tíu sumur. „Þetta byrjaði þegar ég var um 14 ára gamall og ég aðstoðaði þáverandi golfkennara með kennslu í einhver tvö þrjú sumur. Síðan hef ég starfað sem vallarstarfsmaður, séð um kennslu yngri iðkenda, verið með nokkur nýliðanámskeið, upprifjunarnámskeið og í ár sé ég um alla þjálfun bæði yngri og eldri iðkenda allt frá 1. – 10. bekks, ásamt því að þjálfa á Blönduósi og Skagaströnd einu sinni í viku.“
Þú varst ráðinn íþróttastjóri GSS á dögunum. Í hverju felst starfið?
-Starfið snýst um þjálfun barna og unglinga ásamt því að sinna almennum félagsmönnum. Ég sé um að skipuleggja komur gestaþjálfara og starfa með þeim við þjálfun.
Hvernig hefur gengið og hvernig sérðu sumarið fyrir þér?
-Sumarið hefur bara gengið stórvel hingað til og ég sé fram á að það verði bara betra. Það er í nægu að snúast á golfvellinum og mikið af stórum verkefnum fyrir hendi. Við erum að fara í keppnisferð á Hellu í sveitakeppni, GSS sendir frá sér bæði drengja og stúlkna sveit, en stúlknasveitin er sameiginleg með GA (Golfklúbbur Akureyrar). Stuttu eftir sveitakeppni er meistaramót barna og unglinga GSS og slatti af öðrum mótum í kjölfarið sem krakkarnir taka þátt í.
Fram hefur komið að mikil fjölgun hefur verið í klúbbnum undanfarið en hvernig gengur að fá yngstu þátttakendurna til að byrja að stunda golfið?
-Það hefur bara gengið ansi vel, í heildina eru um 30 krakkar frá 1. – 4. bekk sem æfa golf hjá okkur í GSS og margir mjög efnilegir og gætu farið langt ef þeir leggja sig fram. Í síðasta móti sem að yngri hópurinn tók þátt í sáum við bara mjög góðan árangur og voru keppendur frá GSS ofarlega á töflunni.
Í framtíðaráformum klúbbsins er stækkun vallarins úr 9 í 12 holu völl. Hvernig líst þér á það og hvað telur þú að breytist við þá framkvæmd?
-Mér lýst ágætlega á áætlun klúbbsins að stækka völlinn, stækkun vallar býður upp á meiri fjölbreytileika og skemmtilegri golfhring.
Hvaða golfkennara verður klúbburinn með í sumar?
-Ég sé um alla þjálfun barna og unglinga í sumar, en fæ gestaþjálfara inn reglulega t.d. Heiðar Davíð Bragason golfkennara frá Golfklúbbi Akureyrar sem mun koma í sex til átta skipti yfir sumarið.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Golf er íþrótt fyrir alla aldurshópa og það þýðir ekkert að vera feiminn við að koma og prófa. Meirihluti allra þeirra sem hafa tekið þátt í nýliðanámskeiðum á
golfvellinum hafa haldið áfram að spila og það er ekki að ástæðulausu, golf er stórskemmtileg íþrótt fyrir alla.
Áður birst í 26. tbl. Feykis 2021.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.