Góður sigur á grjóthörðum Grindvíkingum

Taiwo Badmus var bestur Stólanna í gær. Hér er hann í troðsluhugleiðingum gegn liði Njarðvíkur í vor. MYND: DAVÍÐ MÁR
Taiwo Badmus var bestur Stólanna í gær. Hér er hann í troðsluhugleiðingum gegn liði Njarðvíkur í vor. MYND: DAVÍÐ MÁR

Tindastólsmenn héldu til Grindavíkur í gær þar sem hálf lemstraðir heimamenn biðu þeirra með einn erlendan leikmann í sínum röðum þar sem einn var í banni og annar ekki kominn með leikheimild. Þrátt fyrir það voru heimamenn sprækir og börðust allt til síðasta blóðdropa en á endanum voru Stólarnir of sterkir og héldu glaðbeittir heim á Krók með stigin tvö í pokahorninu. Lokatölur 83-94 og bæði lið með sex stig að loknum sex umferðum.

Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar en Nökkvi Nökkva kom heimamönnum þremur stigum yfir, 23-20, þegar átta mínútur voru liðnar. Zoran, Keyshawn, Siggi og Raggi gerðu síðustu körfur leikhlutans fyrir Stólana og staðan 23-26 að honum loknum. Key og Siggi komu muninum í tíu stig í upphafi annars leikhluta og því forskoti héldu gestirnir fram að hléi og vel það, náðu mest 14 stiga forystu, 39-53, en Óli Óla lagaði stöðu heimamenn með íleggju um leið og fyrri hálfleikur rann sitt skeið á enda. Staðan 44-55 í hálfleik.

Varnarleikur Stólanna var ekki burðugur í fyrri hálfleik og ekki lagaðist hann í þriðja leikhluta. Það sem verra var að það hálfpartinn drapst á sóknarleiknum eða í það minnsta hættu menn að setja skotin ofan í körfu Grindvíkinga. Munurinn hélst í kringum tíu stigin framan af en síðustu fimm mínútur leikhlutans gekk hvorki né rak hjá Stólunum. Arnór Tristan jafnaði leikinn 67-67 en Pétur svaraði. Þá mætti skriðdrekinn, Óli Óla, og jafnaði á ný og lokaorðið átti Valdas Vasylius sem setti niður tvö víti. Staðan 71-69 fyrir heimamenn þegar fjórði leikhluti hófst.

Stólarnir hristu af sér slenið í fjórða leikhluta þó enn gengi illa að setja skotin niður. Arnar spólaði niður tveimur körfum í upphafi og gestirnir náðu í hvelli 2-12 kafla. Staðan þá 73-81 o Jóhann Ólafur, þjálfari Grindvíkinga, tók leikhlé og trekkti mannskapinn upp á ný. Það skilaði sér því ekki leið á löngu þangað til allt var jafnt á ný, 81-81. Þá liðu tvær mínútur án þess að liðin næðu að skora. Það var síðan vendipunktur að Taiwo stal boltanum af Arnóri Tristan og tróð með tilþrifum. Keyshawn kom gestunum fjórum stigum yfir þegar tvær mínútur voru eftir og nú virtist mesti móðurinn runninn af Grindvíkingum. Bragi Guðmunds minnkaði þó muninn í 83-85 en síðustu níu stigin gerðu Tindastólsmenn og kættu öflugan hóp stuðningsmanna sinna sem höfðu mætt í Grindavík.

Góður sigur staðreynd og alltaf gott að sækja stigin í Grindavík. Hefðu Stólarnir hitt eðlilega fyrir utan 3ja stiga línuna þá hefðu þeir nú átt þægilegra kvöld. Key var 0/6, Raggi 0/5, Pétur 0/3, Arnar 1/9, Zoran 2/7, Taiwo 3/7 og Drungalis 3/4 sem gerir 22% nýtingu. Taiwo var öflugastur í gærkvöldi með 23 stig og sjö fráköst, Keyshawn skilaði 21 stigi og sex fráköstum, Drungalis endaði með 19 stig, Zoran gerði 12 og Arnar 10. Pétur átti fínan leik því þó hann skilaði aðeins fjórum stigum á töfluna var hann frákastahæstur með níu stykki og átti átta stoðsendingar.

Hinn 39 ára gamli Valdas var atkvæðamestur heimamanna með 23 stig og ellefu fráköst, líkt og Óli Óla sem gerði 20 stig. Þá var Bragi Guðmunds með 20 stig. Næsti leikur er hér í Síkinu nú á fimmtudag en þá kemur topplið Breiðabliks í heimsókn en Blikarnir hafa komið skemmtilega á óvart það sem af er tímabili. Með sigri koma Stólarnir sér betur fyrir á stigatöflunni og því mikilvægt að ná góðum leik. Til þess þurfa Stólarnir góðan stuðning. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir