Góðan daginn, frú forseti

Alexandra Chernyshova, sem Norðlendingar þekkja vel vegna starfa hennar í sönglistinni, hefur ráðist í það stórvirki að semja óperu í þremur þáttum um ævi og störf frú Vigdísar Finnbogadóttur, sem fyrst kvenna var kjörin þjóðarleiðtogi í heiminum. Alexandra semur bæði tónlist og handrit en ljóðin eiga Sigurður Ingólfsson, Hannes Hafstein, Ásta Björk Sveinbjörnsdóttir, Þórhallur Barðason, og Elísabet Þorgeirsdóttir auk Alexöndru sjálfrar.

Hljómsveitin er skipuð 22 hljóðfæraleikurum og tveir kórar; Karlakór Grafarvogskirkju, kórstjóri Íris Erlingsdóttir og Kvennakór Suðurnesja, kórstjóri Dagný Jónsdóttir, fylla loftið söng ásamt einsöngvurum. Þeir eru; Alexandra Chernyshova, Jóhann Smári Sævarsson, Gissur Páll, Guðmundur Karl Eiríksson, Gerður Bolladóttir, Viðar Gunnarsson, Elsa Waage, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir og Íris Sveinsdóttir. Hljómsveitarstjóri Garðar Cortes og konsertmeistarar Einar Bjartur Egilsson og Guðný Guðmundsdóttir.

Óperan er í þremur þáttum, samin fyrir ellefu einsöngvara, kóra og óperuhljómsveit. Textinn eða ljóðin í óperunni er á nokkrum tungumálum - íslensku, frönsku og ensku í samstarfi við ljóðskáldið Sigurð Ingólfsson og fleiri. Alexandra segir tónverkið byggt á heimildum um Vigdísi Finnbogadóttur. „Þrjú og hálft ár hefur farið í rannsóknarvinnu, þ.e. að afla efnis, ýmiskonar lestur og gerð handrits óperunnar. Það hefur ekki verið samin ópera um Vigdísi Finnbogadóttur áður og því er listrænt gildi verksins töluvert sem og fyrir útbreiðslu menningararfs Íslendinga, sem er mikilvægur þáttur í baráttu kvenna á alþjóðavísu. Óperan „Góðan daginn, frú forseti“ er samin til þess að gefa konum, og körlum, innblástur og segja sögu þessa merkilegu konu og atburði sem gerði Vigdísi Finnbogadóttur að fyrsta kvenforsetanum í heiminum,“ segir Alexandra.

Konsertuppfærsla af óperunni verður sýnd 23. október kl. 20:00 í Grafarvogskirkju og hægt að nálgast miða á Tix.is.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir