Góð aflabrögð og aukin umsvif um Skagastrandarhöfn
Í frétt á vef Skagastrandar er sagt frá því að á árum áður hafi tíðkast að Norðlendingar hafi yfirgefið heimili sín og fjölskyldur og farið á vetrarvertíð suður með sjó. „Húsmæður sátu eftir og gættu bús og barna yfir erfiðasta tíma ársins. Skagstrendingar bjuggu lengi við slíkar aðstæður,“ segir í fréttinni en í haust hefur þetta snúist við. Nú eru það Suðurnesjamenn, ásamt fleirum, sem nýta Skagastrandarhöfn umtalsvert til landana.
Skagstrendingar gleðjast skiljanlega mjög yfir auknum umsvifum um höfnina en mestu munar þar um skip Vísis hf. í Grindavík sem eftir nokkurt hlé hafa á ný landað á Skagaströnd, enda samgöngur góðar og tiltölulega stutt að sækja á gjöful fiskimið.
Myndin sem fylgir fréttinni sýnir samanburð á löndunartölum um Skagastrandarhöfn frá 1. september til 24. nóvember á árabilinu 2017-2021 og magnið er umtalsvert meira en verið hefur undanfarin ár, eða ríflega helmingi meira en meðaltal áranna fjögurra þar á undan.
„Skagstrendingar fagna þessu auðvitað og vonast til að aðbúnaður á Skagaströnd, þjónusta hafnarinnar og Fiskmarkaðs Íslands sé með þeim hætti að áframhald geti orðið á,“ segir í lok fréttarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.