Glæsileg gjöf afhent á fjölskyldudeginum á hátíðinni Eldur í Húnaþingi

Egill með foreldrum sínum og glæsilegu gjöfinni
MYND: Aldís Olga Jóhannesdóttir
Egill með foreldrum sínum og glæsilegu gjöfinni MYND: Aldís Olga Jóhannesdóttir

Egill Þór Pétursson er þriggja ára drengur býr á Laugarbakka í Húnaþingi-Vestra. Hann er með heilkenni sem kallast Snap25, sem einungis 30 einstaklingar í heiminum hafa greinst með og þar ef er Egill eini íslendingurinn. Foreldrar hans (Ragnheiður og Pétur) eru að byggja sér hús á Hvammstanga, húsið mun vera á einni hæð sem er mjög gott fyrir Egil.
Egill er duglegur drengur sem er alltaf að taka einhverjum framförum, hann hleypur um og alltaf eitthvað að brasa en jafnvægið er ekki upp á sitt besta hjá honum og er hann því oft á hausnum.
Núverandi nágranni Egils og foreldra hans, Hulda Signý Jóhannesdóttir, vildi gera eitthvað sem gæti hjálpað Agli með jafnvægið. Það er víst þekkt að það að koma fötluðum á hestbak getur hjálpað mikið til við jafnvægi og margt fleira og ákvað Hulda þess vegna að athuga hvort að það að koma Agli á hestbak væri möguleiki. Nágranni Röggu og Pésa hafði samband við verslunina Lífland, sagði þeim svolítið frá Agli Þór og bað þau mjög fallega um að styrkja Egil Þór með gjörð og þunnri dýnu. Svo krossaði nágranninn fingur og vonaði það besta. Þau hjá Líflandi voru nú ekki lengi að svara
„Okkur er sönn ánægja að styrkja Egil Þór um gjörð og undirdýnu. Gangi ykkur sem allra best í hreyfiþjálfun Egils Þórs. Við erum handviss um að hann á eftir að njóta góðs af því, bæði andlega og líkamlega, að komast reglulega á hestbak.”
Nágranninn sá svo um að afhenda Agli Þór og foreldrum hans gjöfina á fjölskyldudeginum á hátíðinni Eldur í Húnaþingi á Hvammstanga 23.júlí.

Frábært framtak hjá Huldu Signý og Líflandi!

/IÖF

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir