„Gjörsamlega trylltumst þegar seinna mark okkar kom“
Feðgarnir Ómar Bragi Stefánsson, Ingvi Hrannar og Stefán Arnar Ómarssynir frá Sauðárkróki fóru saman á leik Íslands og Englands sl. mánudag. Feykir samband við Ingva Hrannar og fékk að heyra nánar um upplifun hans af þessum magnaða leik en Ingvi Hrannar ætlar að skella sér aftur til Frakklands um helgina, til að styðja íslenska landsliðið gegn Frakklandi á Stade de France á sunnudaginn.
„Þetta var algjörlega geggjað. Við feðgar fengum ekki sæti saman. Pabbi og mágur hans sátu hjá Íslendingunum en við bræður sátum mitt í Englands-stúkunni í fyrri hálfleik. Mark eftir 4 mínútur og allir enskir stukku upp og sungu. 81 sekúndu síðar jöfnuðum við og þá stukkum við á fætur og gjörsamlega trylltumst þegar seinna mark okkar kom. Allir Bretarnir voru til fyrirmyndar í kringum okkur en við bræður færðum okkur í hornið til Íslendinganna í hálfleik. Það voru tvö laus sæti hjá pabba.
Við öskruðum og sungum allan leikinn ásamt hinum 5000 Íslendingunum og vorum svo í um klukkustund eftir leikinn á vellinum að fagna með leikmönnum. Stórkostleg stund og einn besti dagur lífs míns. Við munum aldrei gleyma þessu.“
Bjóstu við þessari niðurstöðu og hvað var eftirminnilegast?
„Ég spáði sigri fyrir leik en ég get samt ekki sagt að ég hafi búist við sigri... Meira svona vonaðist. Hoppin og geðshræringin þegar flautað var til leiksloka.“
Hver var besti maður leiksins að þínu mati?
„Ragnar Sigurðsson var stórkostlegur og sama um Gylfa. Varnarvinna alls liðsins var ótrúleg. Birkir Bjarna. hjálpaði liðinu líka með því að vera rólegur á bolta um og losa pressuna. Þeir fá allir 10 í mínum bókum.“
Getur þú sagt aðeins frá fagnaðarlátunum og hittu þið einhverja súra Breta?
„Í raun voru fagnaðarlæti alveg frá því að við komum á völlinn og þangað til við gengum af vellinum 6 klst. síðar. Maður sér að Englendingarnir eiga sögu á svona mótum og kunna fleiri söngva en við erum bara svo samheldin og allir syngja og klappa hjá okkur. Við áttum stúkuna í Nice. Þeir voru meir pirraðir á leiknum út í sína menn en eftir leikinn gengu þeir strax út.“
Ferðu á leik Íslands og Frakklands?
„Já, við fengum miða og þá sleppir maður því tækifæri ekki. Treyjan er á snúru núna og fer með hana suður á morgun. Lendum í París á laugardag.“
Hverju spáir þú fyrir um úrslitin?
„2-0 sigur!“
Í kvöld leikur meistaraflokkur karlaliðs Tindastóls við Víði í Garði en Stólarnir sitja á toppi 3. deildar. Þar munu þeir bræður, Ingvi Hrannar og Stefán Arnar þjálfari liðsins, keppa áður en þeir fljúga til Frakklands á laugardaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.