Gjaldskrá sorphirðu hækkar um 25% :: Verulegar breytingar í sorpmálum á nýju ári

Á nýju ári munu tvær tunnur ekki duga því eftir innleiðingu nýrra laga skulu þær verða þrjár talsins. Mynd: PF
Á nýju ári munu tvær tunnur ekki duga því eftir innleiðingu nýrra laga skulu þær verða þrjár talsins. Mynd: PF

Samkvæmt nýjum lögum um meðhöndlun úrgangs, ber sveitarfélögum að innheimta gjöld vegna meðhöndlunar úrgangs í samræmi við kostnað. „Því er nauðsynlegt að auka tekjur vegna málaflokksins um leið og leitað verði leiða til að ná niður kostnaði vegna hans. Ein helsta leiðin til þess er að auka flokkun og draga úr urðun úrgangs,“ segir í fundargerð umhverfis- og samgöngunefndar Skagafjarðar en samþykkt var hækkun gjaldskrár um 25% sem taki gildi 1. janúar.

Þá verður tekin upp gjaldskrá fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa frá bújörðum, hesthúsum og öðrum aðilum sem eru með skráðan bústofn í búfjárskýrslu búnaðarstofu.

Að sögn Sigfúsar Inga Sigfússonar, sveitarstjóra, námu niðurgreiðslur vegna sorpmála ríflega 61,5 m.kr. í Sveitarfélaginu Skagafirði og ríflega 5 m.kr. í Akrahreppi árið 2020 og sambærilegar tölur má sjá fyrir árið 2021 sem voru 53,2 m.kr. og 7,4 m.kr. Hann segir að eftir að lögin taka gildi verður óheimilt að niðurgreiða sorphirðu og sveitarfélögum gert skylt að innheimta sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs. Þá verður einnig gert skylt að innleiða söfnun á fjórum úrgangsflokkum við hvert heimili í þéttbýli og verður sú breyting einnig innleidd í Skagafirði og mun ná til héraðsins alls þar sem niðurstaða skoðanakönnunar í dreifbýli í Skagafirði leiddi í ljós þá eindregnu skoðun íbúa að taka upp sambærilegt kerfi í dreifbýlinu. Í kjölfar útboðs fyrr á árinu mun á vordögum taka gildi nýr samningur um rekstur sorphirðu í Skagafirði og verður þá innleitt nýtt fjögurra flokka kerfi.

„Það verður með þeim hætti að sorptunnurnar verða þrjár talsins, þ.e. fyrir pappír og pappa, fyrir plastumbúðir og fyrir blandaðan úrgang, auk íláts fyrir matarleifar. Sveitarfélög landsins vinna nú að því hörðum höndum að innleiða þetta nýja kerfi. Fyrirkomulagið verður samræmt á milli þéttbýlis og dreifbýlis í anda niðurstöðu skoðanakönnunar meðal íbúa í dreifbýli þannig að heimilissorp í fyrrgreindum fjórum úrgangsflokkum verður sótt. Sem fyrr segir er lagaskylda að safna fjórum úrgangsflokkum við hvert heimili í þéttbýli. Fyrirtæki í bæði dreifbýli og þéttbýli þurfa eftir sem áður að koma úrgangi frá atvinnustarfsemi til móttökustöðva eða semja við þjónustuaðila sorpsins að sækja það til sín gegn gjaldi,“ segir Sigfús Ingi.

Hann bendir á að miklar breytingar verði með gildistöku nýrra laga og líklegt að enn frekari breytingar verði á meðhöndlun úrgangs á allra næstu árum enda markmið stjórnvalda að styðja við hringrásarhagkerfið með innleiðingu kerfis sem byggir á mengunarbótareglunni þar sem hver og einn borgar fyrir það sem hann hendir og borgar þegar hent er.

„Með því er ætlunin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs og vinna að kolefnishlutleysi Íslands, að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu með því að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs, að draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs og að tryggja að úrgangur sem til fellur fái viðeigandi meðhöndlun svo hann skapi ekki hættu fyrir heilbrigði manna og dýra eða valdi skaða á umhverfinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir