Gerir það besta úr öllu -Áskorandinn Bjarki Benediktsson Breiðavaði

Nú lét ég plata mig. Að skrifa hugleiðingar sínar á blað er ákveðin áskorun þegar maður veit ekkert hvað maður á að skrifa um. Nú myndi Zophonías vinur minn í Hnausum hnussa og segja „og þú sem ert alltaf kjaftandi“.

Að alast upp í sveit eru forréttindi, ég ólst upp á Snæringsstöðum í Svínadal í Svínavatnshreppi hinum forna. Við krakkarnir hlupum eða skoppuðum á milli bæja lékum svolítið á hverjum bæ og höfðum okkur svo hvert til síns heima fyrir kvöldið. Oft voru margir kílómetrar farnir yfir daginn hjólandi, labbandi eða skoppandi á tréskafti með hesthaus framan á, allt mjög hollt fyrir atorkusama krakka.

Fullorðinsárin tóku við og fór ég að vinna á bæjunum í sveitinni því nám heillaði ekki sveitapjakkinn. En lífsins skóli er ekki síðri menntun en önnur ef svo má segja, alla vega ef maður hefur vit á að gera mistök og læra af þeim. Ég starfaði á mörgum bæjum og lærði sumstaðar hvernig á að gera hlutina og annars staðar hvernig á ekki að gera hlutina, en alls staðar var maður hjá góðu fólki. Og í dag er ég kominn á þann aldur sem kallarnir voru á þegar ég starfaði hjá þeim og sé nú að þeir voru ekki eins gamlir og manni fannst.

Hundaáhuga hef ég haft frá unga aldri sem hefur magnast með árunum. Ungur að árum sá ég Einar á Mosfelli vinna með Border Collie tíkurnar sínar sem var hin gagnlegasta skemmtun. Besti vinur mannsins hefur fylgt manninum í gegnum súrt og sætt. Einstaklega skynugar skepnur hvort sem um ræðir blindrahunda, leitarhunda, fíkniefnahunda, fjárhunda sem og aðra hunda sem gegna því hlutverki að vera vinur mannsins í lífsins raunum. Þegar ég byrjaði sjálfur að búa gaf Ingi á Löngumýri mér tík sem ég skýrði Bokku og var hún mesti kosta gripur. Kenndi hún mér mun meira en ég henni. Gengum við Bokka saman í gegnum námskeið hjá Gunnari á Daðastöðum og sagði hann mér að læra af tíkinni því að hún væri alveg með þetta í sér. Við Bokka gengum smalaveginn oft grýttan og brattan og minnist ég hennar af mikilli virðingu.

Munum svo gott fólk að ánægðasta fólkið hefur ekki allt það besta heldur gerir það besta úr öllu.

Áður birst í 12. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir