„Gaman að sjá alvöru stuðningsmenn Tindastóls vakna í gær,“ segir Baldur þjálfari

Sigtryggur Arnar var öflugur í gær og skoraði 22 stig. Mynd: Hjalti Árna.
Sigtryggur Arnar var öflugur í gær og skoraði 22 stig. Mynd: Hjalti Árna.

Tindastóll fékk Njarðvíkinga í heimsókn í Síkið á Sauðárkróki í gærkvöldi er liðin áttust við í Subway- deildinni í körfubolta. Fór svo eftir spennandi lokaleikhluta að gestirnir náðu undirtökunum og sigldu öruggum sigri í höfn 84 – 96 og kræktu sér þar með í efsta sæti deildarinnar með 22 stig, jafnmörg og ríkjandi Íslandsmeistarar Þór Þorlákshöfn.

Það var gaman að komast aftur á áhorfendabekkina í gær án íþyngjandi sóttvarnatakmarkana og létu þeir rúmlega 230 áhorfendur sem mættu vel í sér heyra. Munar um minna fyrir liðið að fá þann stuðning enda mátti sjá ljómandi góð batamerki á Stólum frá mörgum fyrri leikjum.

Liðin mættu vel stemmd til leiks og skiptust á að leiða í fyrsta leikhluta sem endaði með 20 stigum Stóla gegn 22 Njarðvíkur. Örlítið hökt var á Stólum í öðrum leikhlutanum þar sem gestirnir náðu að síga eilítið framúr en eftir aðeins þrjár mínútur höfðu þeir skorað tíu stig gegn fimm og staðan 25-32 en þegar leikhlutinn var ríflega hálfnaður höfðu Njarðvíkingar náð tíu stiga forystu 29-39 sem hélst nánast til hálfleiks. Hálfleikstölur 36-44 þar sem gestir endurtóku 22 stiga skori sínu meðan Stólar settu einungis 16 stig.

Liðsmenn Tindastóls náðu heldur betur að hrista sig saman í leikhléinu og gengu jafnt og þétt á forskor Njarðvíkurliðsins og eftir aðeins þrjár mínútur jöfnuðu þeir 48-48 og spennan allsráðandi um allt hús. Stólar náðu loks að vinna leikhlutann 24 - 20 og staðan því 60-64 þegar lokakaflinn hófst.

Nú fóru í hönd skemmtilegar og jafnframt spennandi mínútur þar sem Stólar náðu að jafna og koma sér í forystusætið 73-71 skömmu fyrir miðjan leikhluta og stuðningsmenn farnir að eygja von á kærkomnum sigri. En Adam var ekki lengi í Paradís, segir einhvers staðar og þegar leikhlutinn var hálfnaður jöfnuðu gestirnir 73-73 og skildu Stóla eftir og kláruðu leikinn með bravúr 84-96.

Eftir leikinn situr Tindastóll sem fyrr í 7. sæti deildarinnar með 14 stig, jafnmörg og ÍR og KR sem verma næstu tvö sæti. Stutt er í liðin í sætunum fyrir ofan þar sem Grindavík er með 16 stig, Stjarnan og Valur með 18, Keflavík 20 og Þór Þ. 22, jafnmörg og topplið Njarðvíkur.

Javon Bess var stigahæstur heimamanna með 25 stig og ánægjulegt að Sigtryggur Arnar Björnsson hefur fundið sig í skotunum en hann setti niður 22. Einnig var Sigurður Gunnar Þorsteinsson öflugur og náði að skora 13.

Burt alla værukærð

Það er ánægjulegt að sjá að Stólar eru að ná vopnum sínum á ný, skora nógu mörg stig til að vinna leik en því miður fær liðið ennþá of mörg stig á sig. Núna sprakk liðið á limminu rétt í restina þegar lítið var eftir og enginn tími til að rétta úr kútnum og spurning hvað veldur.

„Það vantaði að halda varnarleikinn út allar 40 mínúturnar. Við gerðum vel í 35 mínútur, við þurfum bara að taka betur á því á æfingum og taka í burt alla værukærð. Einnig var vont að missa Pétur útaf með kálfameiðsli,“ segir Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari.

Hefur nýi maðurinn staðið undir þeim væntingum sem þú gerðir til hans og hver er hans helsti styrkur að þínu mati fyrir liðið? „Hann á aðeins í land með leikform, þetta er góður leikmaður, góð sendingageta og skilningur á leiknum. Þegar hann byrjar að setja skotin sín stöðuglega á það eftir að hjálpa liðinu. Í þessum leik var Haukur Helgi að dekka hann og gerði mjög vel á móti honum.“

Loksins mátti fjölmenna í Síkið. Hefur sá stuðningur eitthvað að segja fyrir liðið?

„Já, það var gaman að sjá alvöru stuðningsmenn Tindastóls vakna í gær og áttuðu sig á því að það þarf að styðja liðið í blíðu og stríðu og þagga niður í þessum skemmdu eplum sem halda neikvæðninni stanslaust á lofti alveg sama hvað gengur á.“

Leikur næsta mánudag, hvernig líst þér á hann? „Leikir við KR eru alltaf skemmtilegir, vil sjá fullt hús og alvöru partý. Sleppum Tv-inu og mætum í húsið. Þið hafið gott af því að fara út úr Covid búbblunni og hitta fólk!“

Það er vert að taka undir með Baldri og hvetja alla til að mæta í Síkið nk. mánudagskvöld þegar KR mætir á svæðið og hvetja Stóla til sigurs. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir