Fyrsti fundur LS vegna Skilaboðaboðaskjóðunnar í kvöld
Fyrsti fundur og samlestur vegna haustverkefnis Leikfélags Sauðárkróks fer fram í kvöld en stefnt er á að setja upp leikritið Skilaboðaskjóðan, ævintýrasöngleik byggðum á samnefndri bók Þorvaldar Þorsteinssonar, sem kom út árið 1986 og naut mikilla vinsælda. Stefnt er á að frumsýna 7. október og leikstjóri verður Pétur Guðjónsson, sem er leikhúsfólki á Norðurlandi að góðu kunnur.
Skilaboðaskjóðan segir frá Putta og Möddumömmu sem eiga heima í Ævintýraskóginum þar sem öll ævintýrin gerast. Þegar Nátttröllið rænir Putta til að breyta honum í tröllabrúðu, sameinast allir íbúar skógarins um að bjarga honum áður en sólin sest. En nornin, úlfurinn og stjúpan vilja ekki vera með og þá eru góð ráð dýr.
Fundurinn verður haldinn í Leikborg, Borgarflöt 19 D, og hefst kl. 19:30. Að sögn Sigurlaugar Dóru Ingimundardóttur, formanns félagsins, er leitað að fólki til að vera með í uppsetningunni. „Við óskum eftir fólki til að leika og starfa við sýninguna en þar eru ýmis verkefni sem þarf að sinna, bæði stór og smá. Þetta er t.d. að sauma og finna búninga, vinna við hljóð og ljós, finna leikmuni og vinna við leikmynd, miðasölu og margt fleira. Við biðjum alla þá sem ætla að vera með innan sviðs sem utan að mæta á fundinn eða láta mig vita fyrir fundinn svo við vitum hvort við náum að manna allar stöður,“ segir Sigurlaug Dóra og bætir við að ef einhverjar spurningar vakni eða viðkomandi kemst ekki á fundinn þá sé hægt að hafa samband við formann hana í síma 862 5771 fyrir fund en aldurstakmark miðast við 10. bekk og eldri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.