Fyrsti æfingaleikurinn hjá stelpunum um helgina
„Já, ég er sáttur. Leikmenn mættu til æfinga í góðu ástandi þannig að ég sé að stelpurnar voru að æfa í sumar. Í gærkvöldi var önnur æfing okkar með fullt lið og fyrsta skiptið sem við gátum spilað 5 á 5,“ sagði Israel Martiin, þjálfari kvennaliðs Tindastóls í Bónus deildinni þegar Feykir innti hann eftir því hvort hann væri ánægður með hópinn sinn.
Framundan eru nokkrir æfingaleikir en því miður eru allir þrír sem planaðir eru á útivelli. Dagur Þór, formaður körfuknattleiksdeildar, vonast þó til að geta fengið góða gesti í Síkið 24. september en það er ekki í hendi. Nú á sunnudag fara Stólastúlkur í Hafnarfjörð og spila við Hauka, síðan heimsækja þær Stykkishólm 14. september og Stjörnuna í Garðabæ þremur dögum síðar. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Israel Martin í tilefni þess að æfingaleikir eru innan seilingar.
Heldurðu að þú sért kominn með efnivið í lið sem getur spjarað sig í efstu deild? „Ég held að með heimastelpurnum okkar, sem eru flestar ungar en harðduglegar, auk nýrra leikmanna með meiri reynslu, þá höfum við traustan hóp sem við getum byggt á. Markmið okkar fyrir fyrsta tímabil í efstu deild er að skapa stöðugleika hjá liðinu og verkefnið stækkar síðan með hverju tímabili.“
Nú eru nokkrir æfingaleikir framundan, ertu spenntur að sjá hvernig liðið spjarar sig? „Já, það er mikilvægt að byrja að keppa og athuga á hvað stað við erum. Síðan höldum við áfram undirbúningi okkar og gerum liðið klárt fyrir byrjun tímabilsins.“
Ertu ánægður að vera kominn á Krókinn? „Ég og fjölskylda mín erum alltaf til í að koma aftur hingað. Sauðárkrókur er í raun heimabær okkar á Íslandi í grundvallaratriðum. Svo við erum mjög ánægð að vera hér og lífið er gott. Okkur líður vel í samfélaginu.“
Fylgdistu með körfunni á Ólympíuleikunum í sumar? „Já. það er alltaf gaman að sjá hvað samkeppnin umturnast þegar Bandaríkjamenn mæta til leiks með allar ofurstörnurnar sínar. Gabby Williams, franski leikmaðurinn, var sömuleiðis mögnuð í kvennaflokki,“ segir Israel að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.