Fyrsta umferðin í Íslandsmótinu var ekin um helgina

TímON-meðlimurinn Aðalsteinn Símonarson og Sigurður Bragi Guðmundsson voru í 5. sæti í fyrstu umferð í Íslandsmótinu í rallý. Mynd/GG
TímON-meðlimurinn Aðalsteinn Símonarson og Sigurður Bragi Guðmundsson voru í 5. sæti í fyrstu umferð í Íslandsmótinu í rallý. Mynd/GG

Fyrsta umferð í Íslandsmótinu í rallý var ekin í blíðskaparveðri á Suðurnesjum dagana 3. og 4. júní en keppnin var haldin af Akstursíþróttafélagi Suðurnesja. Mikil spenna var í loftinu strax í upphafi, fjórtán áhafnir voru skráðar til leiks og ljóst var að barist yrði um verðlaunasæti. 

Eftir spennandi sérleiðir á föstudeginum voru þau Daníel og Ásta Sigurðarbörn í fyrsta sæti  en fast á hæla þeim komu þeir Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson. Laugardagur hófst með þremur umferðum um sérleið hjá Djúpavatni, sú leið er bæði löng og krefjandi fyrir áhöfn og bíla. Áfram var keppnisskap í fólki, allt var lagt undir og fór svo að þau Daníel og Ásta urðu frá að hverfa eftir að hafa ekið útaf en þau voru þá örugg í fyrsta sæti. Einnig urðu tvær aðrar áhafnir að hætta keppni vegna bilana í bifreiðum þeirra. 

Við lok dags voru það því þeir félagar Henning og Árni sem hömpuðu fyrsta sætinu. 

TímON-meðlimurinn Aðalsteinn Símonarson ásamt Sigurði Braga Guðmundssyni átti á brattann að sækja eftir mikil skakkaföll á föstudeginum og hófu þeir keppni í 12. sæti á laugardagsmorgunn. Þeir óku hratt en örugglega sem síðan skilaði þeim 5. sæti í lok dags. 

Næsta umferð verður ekin helgina 24. – 25. júní en staðsetning er enn ókunn. 

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir