Fyrsta skemmtiferðaskipið á Sauðárkrók síðan 1977
Um hádegisbilið í dag lagðist skemmtiferðaskipið Hanseatic Nature að bryggju á Sauðárkróki, það fyrsta frá árinu 1977 er þýska skipið World Discoverer sigldi inn Skagafjörðinn. Skipsins hefur verið beðið með eftirvæntingu í samfélaginu en alls eru fjórar komur bókaðar í sumar, tvær í júlí og tvær í ágúst.
Þýska skipið World Discoverer við bryggju
á Sauðárkróki í ágúst 1977. Í forgrunni
stendur Sveinn Nikódemusson hafnarstjóri.
Úrklippan er sótt á Tímarit.is.
Segja má að Skagafjörður hafi tekið ágætlega á móti ferðalöngum með blíðuveðri, sól og smá rigningarskúrum inn á milli. Engin vandræði voru fyrir skipstjórnendur að leggjast að bryggju enda má setja Hanseatic Nature í flokk smærri skemmtiferðaskipa, vart stærra en flutningaskipin sem reglulega koma við á ferð sinni um heimshöfin. Skipið kom frá Noregi og heldur síðan til Grænlands með allt að 230 farþega.
„Tilgangur með komu skemmtiferðaskipa í Skagafjörð er að lyfta undir með ferðaþjónustunni og fá hingað fleiri ferðamenn. Það er staðreynd að skemmtiferðaskip hafa reynst gríðarlega mikilvæg fyrir ferðaþjónustuaðila, veitingahúsa- og verslunareigendur á Siglufirði, Húsavík, Ísafirði, Seyðisfirði og fleiri stöðum á Íslandi. Ferðaþjónustuaðilar vítt og breitt um Skagafjörð eru með ferðir í sölu fyrir skipin og það eru ferðaþjónustufyrirtækin Iceland Travel og Atlantik sem sjá um að þjónusta skipin og selja ferðirnar fyrir ferðaþjónustuaðila. Ekki munu allir farþegar fara í ferðir, svo búast má við töluverðum fjölda ferðafólks á Sauðárkróki þessa daga,“ segir á heimasíðu Skagafjarðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.