Fulltrúar ferðaskrifstofa heimsóttu Norðurland vestra
Á vef SSNV er sagt frá því að í síðustu viku hafi starfsfólk nokkurra ferðaskrifstofa frá Reykjavík, alls níu manns, verið á ferð um Norðurland vestra. Ferðalagið, sem var skipulagt í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands, stóð í tvo daga og heppnaðist einstaklega vel.
Fram kemur í fréttinni að fjölmargir ferðaþjónustuaðilar á svæðinu hafi verið heimsóttir en einnig voru sett upp stefnumót á Sauðárkróki, Blönduósi og Laugarbakka sem voru misvel sótt. Svona ferðir nýtast vel í að kynna nýjungar og/eða breytingar fyrir fólki, sem dagsdaglega er að vinna í skipulagningu og sölu ferða til erlendra aðila og því mikilvægt að halda þeim vel upplýstum.
Í bland við góða þátttöku ferðaþjónustuaðila af svæðinu á hinum árlegu mannamótum markaðsstofanna eru svona heimsóknir lykillinn að því að þekking á möguleikum svæðisins berist á rétta staði. Þátttakendur voru almennt ánægðir með það sem fyrir augu bar og ekki spillti afbragðs veður báða dagana fyrir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.