Fuglahræ vekja grunsemdir um fuglaflensu
Feykir fékk sendar myndir af fuglahræjum sem lágu í fjörunni við Sauðárkrók á dögunum en á um 500 metra kafla sáust a.m.k. sjö dauðir lundar. Þó það sé ekki óalgengt að fuglahræ verði á vegi fólks í fjörugöngunni vekur þetta samt upp spurningar hvort fuglaflensu geti verið um að kenna.
Í mars sl. voru fyrirskipaðar hertar varnaraðgerðir á Íslandi til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og var það gert þar sem talið var að auknar líkur væru á að skæðar fuglaflensuveirur bærust til landsins vegna mikils fjölda tilfella í löndum þar sem íslenskir farfuglar hafa vetursetu eða viðkomu á leið til landsins. Á heimasíðu MAST má sjá að í apríl hafi greinst fuglaflensuveirur af gerðinni H5 í villtum fuglum, þ.á.m. einn á Norðurlandi vestra, og einnig í heimilishænum á einum stað. Á sama tíma voru staðfestar skæðar fuglaflensuveirur (H5N1) í haferni sem fannst dauður í október 2021.
Fólk er hvatt til að tilkynna til MAST ef villtur fugl finnst dauður, nema ef augljóst er að hann hafi drepist af slysförum.
„Það hefur mikið upplýsingagildi fyrir Matvælastofnun að fá slíka tilkynningu sem verður skráð hjá okkur. Starfsmenn Matvælastofnunar fara yfir allar ábendingar og meta hvort taka skuli sýni eða ekki vegna fuglaflensu,“ segir Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir alifuglasjúkdóma hjá MAST, við eftirgrennslan Feykis.
Segir hún matið byggjast m.a. á því um hvaða fuglategund sé að ræða og hvar fuglinn finnst. Ekki er hægt að taka sýni úr öllum fuglum sem finnast en mikilvægt er samt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningar.
„Venjulega er hræið látið liggja á fundarstaðnum, hvort sem sýni verða tekin eða ekki. Sé æskilegt að hræið verði fjarlægð, til dæmis ef það liggur í nærumhverfi manna, er rétt að setja sig í samband við viðkomandi sveitarfélag eða fjarlægja það sjálft samkvæmt leiðbeiningum á upplýsingarsíðu Matvælastofnunar,“ segir Brigitte.
Eitt tilfelli á Norðurlandi vestra
Þessa dagana er Matvælastofnun að taka saman upplýsingar um dauðsföll í villtum fuglum nú í sumar og mun stofnunin birta upplýsingar um það fljótlega. „En það bendir allt til þess að miðað við tilkynningar frá almenningi og frá fuglasérfræðingum sé fuglaflensa áfram að fella villta fugla og ekki virðist lát á því.“
Upplýsingar um sýni sem tekin eru og niðurstöður úr þeim má sjá í kortasjá MAST en þar er smellt á ör framan við „Fuglaflensa frá 1/10/21“ og hakað í reitinn. Þar sést að fjórir dauðir fuglar hafi verið rannsakaðir á Norðurlandi vestra og aðeins eitt jákvætt sýni greinst. Var það Helsingi sem fannst við Blönduós í apríl.
Feykir hafði samband við Viggó Jónsson, hjá Drangeyjarferðum, og forvitnaðist um hvort vart hefði verið við óvenju mikinn fugladauða. „Nei, það hefur ekki orðið neitt svoleiðis. Ég sendi egg í vor til Villa dýralæknis, [Vilhjálms Svanssonar, tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum] í vor. Ég væri örugglega búin að heyra það ef það hefði verið jákvætt gagnvart fuglaflensu. Svo komu þeir Erpur og félagar [Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands sem m.a. annast stofnvöktun lunda sem hófst árið 2010] tvisvar í sumar og
maður hefði séð það ef það hefði verið eitthvað dautt í kringum eyna. Oft hefur maður séð eitthvað af dauðum fugli en ekki neina stóra hópa og ekkert óvenjulegt í gangi,“ segir Viggó.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.