Frjálsíþróttakrakkar USAH stóðu sig afburða vel á Akureyrarmóti UFA

Hraustir krakkar sem kepptu fyrir Umf Hvöt Blönduósi um helgina. Myndir af FB-síðu USAH.
Hraustir krakkar sem kepptu fyrir Umf Hvöt Blönduósi um helgina. Myndir af FB-síðu USAH.

Akureyrarmót UFA og Kjarnafæði Norðlenska var haldið í Boganum sl. laugardag þar sem keppt var í flokkum frá 10-11 ára upp í karla- og kvennaflokk. Auk þess var boðið upp á þrautabraut fyrir níu ára og yngri. Keppendur USAH stóðu sig afburða vel og unnu til flestra gullverðlauna á mótinu eða 17 alls. Auk þess komu ellefu silfurverðlaun í hús og og þrenn brons eða 31 verðlaun í heildina. Umf. Fram var með tvenn gullverðlaun, ein silfur- og ein bronsverðlaun og Hvöt með fimmtán gull-, tíu silfur- og tvenn bronsverðlaun.

Magnaðir keppendur Umf. Fram á Skagaströnd

Á Facebook-síðu USAH kemur fram að margir hafi bætt sinn persónulega árangur og 20 krakkar tóku þátt í þrautabraut fyrir níu ára og yngri, en þar keppa þau í boltakasti, skutlukasti, hindrunarhlaupi, boðhlaupi, langstökki, grindahlaupi og reiptogi.

Tíu ára og eldri kepptu í 60 m spretthlaupi, 60 m grindahlaupi, 400/600 m hlaupi, langstökki, hástökki, kúluvarpi og skutlukasti.

„Og má með sanni segja að það starf sem unnið er hérna í sýslunni með frjálsar íþróttir sé að skila sér, 39 krakkar frá USAH. 4 frá Fram og 35 frá Hvöt. Vel gert flottu krakkar, haldið áfram að vera framtíð USAH í íþróttum,“ segir í frétt USAH.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir