Freyja kom í heimahöfn á Siglufirði um helgina

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, ásamt fjölda fólks í hressilegu slagveðri á Siglufirði á laugardaginn þegar tekið var á móti Freyju. MYND AF LHG.IS/ÁRNI SÆBERG
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, ásamt fjölda fólks í hressilegu slagveðri á Siglufirði á laugardaginn þegar tekið var á móti Freyju. MYND AF LHG.IS/ÁRNI SÆBERG

Varðskipið Freyja lagðist að bryggju á Siglufirði á laugardag eftir fimm daga siglingu frá Rotterdam. Í frétt á síðu Landhelgisgæslunnar segir að fjölmargir hafi lagt leið sína á Hafnarbryggjuna á Siglufirði til að berja skipið augum þegar það kom til hafnar í fylgd varðskipsins Týs, þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Þá keyrðu viðbragðsaðilar á Norðurlandi í samfloti frá Strákagöngum skipinu til heiðurs auk þess sem séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar skaut þremur heiðursskotum úr fallbyssu þegar skipið kom siglandi inn fjörðinn.

„Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið tóku í sameiningu þá ákvörðun að heimahöfn varðskipsins Freyju yrði Siglufjörður. Með auknum skipaferðum um norðurslóðir fjölgar ferðum stórra flutninga- og olíuskipa með austur- og norðurströndum Íslands. Útlit er fyrir að ferðum skemmtiferðaskipa fjölgi einnig og þarf ekki að fjölyrða um þær ógnir sem lífríkinu er búin ef hætta steðjar að. Klukkustundir til eða frá geta þá skipt sköpum. Með Þór í Reykjavík og Freyju á Siglufirði hefur viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar umhverfis landið verið aukin og hægara verður um vik að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi,“ segir í fréttinni.

Nýja varðskipið er að miklu leyti sambærilegt varðskipinu Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en býr yfir meiri dráttargetu. Með tilkomu Freyju í flota Landhelgisgæslunnar hefur Landhelgisgæslan á að skipa tveimur afar öflugum varðskipum, sérútbúnum til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland.

Sjá nánar/Heimild: Landhelgisgæslan

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir