Framsókn og ríkisstjórnin sigurvegarar kosninganna
Kosið var til Alþingis í gær og þegar atkvæði höfðu verið talin var ljóst að niðurstaða var sigur Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar sem bætti við sig tveimur þingmönnum frá því í kosningunum 2017. Það var Framsókn sem ber ábyrgð á bætingunni því flokkurinn náði inn 13 þingmönnum nú en hafði átta fyrir. Í Norðvesturkjördæmi hlaut Framsókn þrjá þingmenn undir forystu Stefáns Vagns Stefánssonar, fékk 25,8% atkvæða sem er ríflega 7% meira en 2017.
Kjörsókn var 82% í Norðvesturkjördæmi en talin atkvæði voru 17.666, auðir seðlar 394 og ógild atkvæði 24. Lokatölur bárust kl. 7:40 í morgun. Úrslitin í kjördæminu urðu þessi:
B | Framsóknarflokkur 25,8% | 3 menn (+1)
D | Sjálfstæðisflokkur 22,5% | 2 menn (0)
V | Vinstri grænir 11,5% | 1 maður (0)
F | Flokkur fólksins 8,8% | 1 maður (+1)
M | Miðflokkurinn 7,4% | 1 maður (-2)
S | Samfylkingin 6,9% | 0 maður (-1)
P | Píratar 6,3% | 0 maður (0)
C | Viðreisn 6,2% | 0 maður (+1)
J | Sósíalistaflokkur Íslands 4,2% | 0 maður (0)
O | Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn 0,4% | 0 maður (0)
Miðflokkurinn náði inn uppbótarþingmanni, Bergþóri Ólasyni, eftir enduralningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi.
Þingmenn Norðvesturkjördæmis eru nú Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokki, Bjarni Jónsson Vinstri grænum, Eyjólfur Ármannsson Flokki fólksins og sem fyrr segir Bergþór Ólason Miðflokki. Fjórir þessara átta þingmanna eru nýir á þing og þar á meðal Skagfirðingarnir Stefán Vagn og Bjarni Jóns sem hafa þó setið áður sem varaþingmenn.
Miðflokkur og Samfylking töpuðu sínum þingmönnum
Sigurvegarar kosninganna í kjördæminu árið 2017 voru Miðflokkurinn, sem hlaut þá ríflega 14% atkvæða og tvo þingmenn kjörna, og Vinstri græn sem hlutu tæplega 18% atkvæða en aðeins einn þingmann. Samkvæmt skoðanakönnunum, og í ljósi stórsigurs þeirra 2017, mátti búast við því að þessir flokkar töpuðu fylgi og sú varð raunin því Miðflokkur tapaði um helmingi síns fylgis, fór úr 14,2% í 7,4%, en VG hélt sínum þingmanni þrátt fyrir að fá talsvert minna fylgi nú, fóru úr 17,8% í 11,5%.
Framsókn rak vel heppnaða kosningabaráttu og endaði með 17,3% atkvæða á landsvísu sem var langt yfir niðurstöðum allra skoðanakannana. Það er kannski einföldun en engu að síður staðreynd að Framsókn bætti við sig sjö prósentum í NV-kjördæmi sem er nánast nákvæmlega sama prósentutala og Miðflokkurinn tapaði í kjördæminu. Það má því ætla að stór hluti þeirra sem settu X-ið við M árið 2017 hafi skilað sér heim og krossað við B.
Af öðrum vendingum má nefna að Sjálfstæðisflokkur tapaði tveimur prósentum frá síðustu kosningum, fékk 24,5% árið 2017 en 22,5% núna en flokkurinn hélt báðum sínum þingmönnum örugglega. Samfylkingin þurfti að bíta í það súra epli að fara úr 9,7% fylgi 2017 í 6,9% og missa sinn þingmann í kjördæminu sem hlýtur að teljast óvænt. Þá kom líka á óvart að Flokkur fólksins fékk fína kosningu í kjördæminu og náði að koma Eyjólfi kjördæmakjörnum á þing í kjölfarið á sterkum endaspretti Ingu Sæland og hennar fólks á síðustu dögum kosningabaráttunnar.
Ljóst er að núverandi ríkisstjórnarflokkar; Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn, munu byrja á að kanna grundvöll fyrir áframhaldandi samstarfi. Flokkarnir eru ólíkir en traust virðist ríkja milli forsvarsmanna flokkanna.
Feykir óskar nýkjörnum þingmönnum kjördæmisins, og landsins alls, til hamingju með árangurinn og heiðurinn.
- - - - -
Athugið! Fréttin var uppfærð kl. 19:00 en í kjölfar endurtalningar í Norðvesturkjördæmi fóru nokkrir uppbótarþingmenn að valhoppa milli kjördæma. Eftir fyrri talningu var Guðmundur Gunnarsson í Viðreisn uppbótarþingmaður í kjördæminu en að lokinni síðari talningu er Bergþór Ólason í Miðflokki þingmaður á ný. Endurtalningin hafði ekki áhrif á fjölda þingmanna hvers flokks en nokkrir karlar komu inn í stað kvenna og því eru konur ekki fleiri en karlar á Alþingi eins og allt stefndi í.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.