Framhaldsnám í heimabyggð

Þáttaskil urðu í starfi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra með opnun dreifnámsvers á Hvammstanga á síðasta ári. Nú hafa fleiri svæði bæst við með tilkomu dreifnáms á Blönduósi og Hólmavík. Á dögunum var einnig gengið frá samningum um dreifnám á þessum stöðum en námið hófst nú í haust. Tilkoma þessa náms bætir mjög búsetuskilyrði á þessum svæðum með því að gera framhaldsnemum kleift að stunda nám í heimabyggð til 18 ára aldurs, en náminu er svo lokið í staðarnámi, í flestum tilvikum við FNV.

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra er brautryðjandi á þessu sviði á landsvísu og ber að fagna sérstaklega nýhöfnu samstarfi við Strandamenn um dreifnám á Hólmavík, sem ásamt námsverunum á Hvammstanga og Blönduósi mynda öfluga heild í starfi skólans. Þessi nýja áskorun í skólastarfinu er mikilvægur þáttur í eflingu hans og byggðar á starfssvæðinu.

FNV í sókn

Hlutfall ungmenna á framhaldsskólaaldri í landshlutanum sem stundar nám við FNV hefur á tveimur árum hækkað úr 53% í 63% og hefur hlutur stúlkna aukist hvað mest og er kynjaskipting nema við skólann orðin nokkuð jöfn. Fleiri námsleiðir sem höfða sérstaklega til stúlkna hafa hér sitt að segja og svo af sjálfsögðu dreifnámið. Nálægt 40 manns stunda nú dreifnám á þessum þremur stöðum og er búist við að þeim fjölgi talsvert næsta haust þegar von er á stærri árgöngum þar sem ná framhaldsskólaaldri. Bryddað hefur verið upp á ýmsum nýjungum í námsframboði við FNV síðustu misseri, má þar nefna hársnyrtinám, kvikmyndaiðn og nýja námsleið í plast,- og trefjaiðnaði. Þá mun um næstu áramót verða hleypt af stokkunum nýrri braut, nýsköpunar- og tæknibraut, en það nám nýtur góðs af samstarfi við Nes listamiðstöð, myndlistarfélagið Sólon á Sauðárkróki, Sjávarleður og fleiri aðila og fyrirtækja í hönnun og skapandi greinum. Slíkt samstarf við fyrirtæki og hagsmunaaðila tengd viðkomandi námsgreinum hefur einmitt haft sitt að segja fyrir velgengni skólans á fleiri sviðum. Aðildarsveitarfélögin hafa ennfremur staðið þétt á bak við uppbyggingu skólans og gegna þar lykilhlutverki.

Dreifnámið verði fest í sessi

Þrátt fyrir að skrifað hafi verið undir samninga um dreifnám á Blönduósi og Hólmavík nýverið er enn óvissa um fjármögnun þess á næsta ári. Slíkur samningur var gerður vegna dreifnáms í Húnaþingi vestra á síðasta ári, en fjármögnun námsins jafnframt tryggð til þriggja ára. Fjármögnun heimaaðila í Húnaþingi vestra, ásamt fjárveitingu í gegnum sóknaráætlun landshluta gerði það mögulegt að hefja dreifnám á Hvammstanga, en í framhaldi af því var gerður samningur við menntamálaráðuneytið um fjármögnun þess til næstu ára. Fjármagn sem fékkst í gegnum landshlutaáætlun með samningi SSNV og ríkisins gerði það mögulegt að hefja dreifnám á Blönduósi nú í haust, en heimamenn komu þar einnig myndarlega að. Sömu sögu er að segja af dreifnáminu á Hólmavík. Fjármögnun í gegnum landshlutaáætlun og samstaða fólks á svæðinu, skipti sköpum um að koma þessum þremur dreifnámsverkefnum á stað. Reynslan er góð og nú ríður á að stjórnvöld bregðist við og tryggi framtíð dreifnáms á þessum stöðum með samningum til lengri tíma og nauðsynlegum fjárveitingum til Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra til að sinna verkefninu og þróa það áfram í samvinnu við heimamenn.

Bjarni Jónsson
formaður skólanefndar FNV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir