Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Stefán Vagn Stefánsson Framsóknarflokkur
Oddvitaskipti urðu hjá Framsóknarflokknum í Norðvesturkjördæmi eftir að Ásmundur Einar Daðason ákvað að færa sig í annað Reykjavíkurkjördæmið í vor. Þar stendur nú Stefán Vagn Stefánsson í brúnni og freistast til að leiða flokkinn til sigurs í kjördæminu. Stefán hefur gegnt stöðu yfirlögregluþjóns á Norðurlandi vesta og er forseti sveitastjórnar í Sveitarfélaginu Skagafirði.
Stefán Vagn er búsettur á Sauðárkróki, giftur Hrafnhildi Guðjónsdóttur, félagsráðgjafa hjá sveitarfélaginu Skagafirði og eiga þau þrjú börn, Söru Líf, Atla Dag og Hrafnildi (Lillu) ásamt einu barnabarni, henni Rebekku. „Ég er lögreglumaður að mennt og hef starfað sem slíkur frá árinu 1997 og sem yfirlögregluþjónn fyrst í Skagafirði og síðar á Norðurlandi vestra frá 2008. Ég lærði stjórnmálafræði við Háskóla Íslands 2005-2008 og hef verið í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 2010, formaður byggðarráðs 2010-2020 og forseti sveitarstjórnar 2020 til dagsins í dag. Hef setið í stjórn samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og verið þar formaður og er í dag formaður flóttamannanefndar.“
Pólitík
Stefán segir að með því að setja krossinn hjá honum í næstu kosningum eru kjósendur að greiða Framsóknarflokknum atkvæði sitt. „Með því eru kjósendur að velja flokk sem hefur samvinnu og öfgalausa stefnu að leiðarljósi og vill fjárfesta í fólki til framtíðar. Framsókn er byggðarsinnaður flokkur og hefur ávallt haft hagsmuni landsbyggðarinnar að leiðarljósi, hagsmuni sem skipta okkur miklu máli hér á Norðurlandi vestra. Það þarf að jafna leikinn, milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarinnar og fyrir því mun ég, og Framsóknarflokkurinn berjast. Ég hef verið í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar síðan 2010 og barist fyrir uppbyggingu þess sveitarfélags alla daga og hlakka til að takast á við ný verkefni með nýtt og breiðara umboð alls kjördæmisins,“ segir Stefán og bætir við að hann brenni fyrir byggðarmálum og fyrir þeim mun hann áfram berjast.
Byggðarmál í sinni breiðustu mynd eru þau mál sem Stefán vill setja á oddinn og framfylgja. „Það er byggðarvinkill á öllum málum og sá vinkill verður að vera sýnilegur og til umræðu í öllum málum er alþingi fjallar um. Við þurfum að auka atvinnumöguleika fólks á landsbyggðinni, við þurfum að tryggja litlum og meðalstórum fyrirtækjum öruggari rekstrargrunn en það eru fyrirtækin sem halda uppi atvinnu á landsbyggðinni. Það getum við gert með því t.d. að nota skattkerfið. Það þurfa að vera hvatar í skattkerfinu fyrir fólk og fyrirtæki að setja sig niður á landsbyggðinni líkt og gert er t.d. í Noregi. Heilbrigðiskerfið þarf heildarendurskoðun og þar þarf að horfa sérstaklega til heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.“
Hvernig sérðu fyrir þér að þú náir því máli fram og hvernig yrði það fjármagnað?
„Lykilinn að því er að halda núverandi hagvexti og gangi áform eftir um 4-6% hagvöxt til næstu 3-4 ára þá náum við að vinna okkur út úr þeirri stöðu sem ríkisjóður er nú í. Þar þarf að koma til lágt vaxtastig og lág verðbólga og því ljóst að eitt af stóru verkefnunum á næsta kjörtímabili er að viðhalda stöðuleikanum.“
Hvað telur þú að brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra?
Stefán segir áherslur misjafnar eftir svæðum þegar um svo stórt kjördæmi er að ræða þegar hann er spurður um hvað brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra. Þó megi segja að rauði þráðurinn, sem liggur í gegn um kjördæmið óháð dreifbýli, þéttbýli, stórum byggðarkjörnum eða litlum, séu heilbrigðismálin og samgöngur. „Staða landbúnaðarins er fólki ofarlega í huga og þá sérstaklega staða sauðfjárbænda. Sú staða er grafalvarleg og þarf að fara í ítarlega endurskoðun á því kerfi sem við erum með í dag. Jöfnun á þjónustu hinna dreifðu byggða er líka mál sem vegur þungt í umræðunni og þarf að taka föstum tökum á næsta kjörtímabili. Á Vestfjörðum er mikil umræða um fiskeldi og ljóst að þar þarf að fara í gagngerða endurskoðun á því regluverki sem lítur að greininni. Fjöldi annarra mála brenna á íbúum þessa svæðis sem of langt mál væri að telja upp en ef þú tekur þau saman í eitt orð eru það BYGGÐARMÁL.“
Stefán vill hvetja íbúa til að kynna sér vel stefnuskrá flokkanna áður en það tekur ákvörðun hvar x-ið er sett. „Það skiptir máli að kjósa því það er dýrmætur réttur sem við eigum að nýta. Það skiptir máli hverjir eru okkar talsmenn á Alþingi Íslendinga.“
Léttari spurningar
Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-„Ég gefst ekki upp“ með Stjórninni, einfaldlega vegna þess að ég gefst aldrei upp.
Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
-Að klára nýliðanámskeið sérsveitar ríkislögreglustjóra árið 2000 og komast heill heim frá Afghanistan.
Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni?
-Hrafnhildi konunni minni, hef ekki hitt hana í margar vikur og langar hrikalega að bjóða henni í mat.
Hvert er aðaláhugamál þitt?
-Íþróttir, fótbolti og körfubolti sérstaklega.
Jafnvægisspurningar
Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?
Ísland gangi í ESB -0
Fá splunkunýja stjórnarskrá - 2
Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar - 5
Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu -7
Lækka almenna skatta - 8
Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir -5
Stokka landbúnaðarkerfið upp - 7
Fleiri opinber störf án staðsetningar - 10
Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra -9
Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti - 0
Lokaspurning
Af hverju ræðst framtíðin á miðjunni?
-Miðjan sameinar ólíkar nálganir í stjórnmálum. Það er nákvæmlega það sem við þurfum nú samvinna og sátt til næstu fjögra ára.
------
Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram nk. laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku.
Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.
Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.