Fræðimenn við HÍ taka þátt í verkefni um nýjar nýsköpunarmiðstöðvar á gömlum iðnaðarsvæðum í Evrópu - Ein þeirra staðsett á Blönduósi

Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og fulltrúar á vegum Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru meðal þátttakenda í alþjóðlega verkefninu CENTRINNO sem nýlega hlaut 8,2 milljón evra styrk (1,3 milljarður ISK) úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins. Í hlut Háskóla Íslands koma tæpar 28 milljónir en heildarstyrkur íslensku þátttakendanna er í kringum 130 milljónir íslenskra króna.

CENTRINNO stendur fyrir New CENTRalities in INdustrial areas and engines for inNOvation and urban transformation. Í tilkynningu frá HÍ segir að markmið verkefnisins sé að endurvekja hnignandi en menningarsögulega mikilvæg iðnaðarsvæði í Evrópu þar sem störfum hefur fækkað og umhverfi er á fallanda fæti. Nýsköpunar- og þekkingarmiðstöðvum verður komið á fót og verður þeim ætlað að mæta helstu umhverfisáskorunum samtímans, efla fjölbreytt og skapandi þekkingarhagkerfi og nýta fyrirliggjandi menningararf kvenna og karla sem hvata fyrir nýsköpun og félagslega þátttöku í anda hringrásarhagkerfis og sjálfbærni.

Textílmiðstöðin á Blönduósi. Mynd:FE

Að verkefninu standa 26 stofnanir og fyrirtæki í níu löndum og verða miðstöðvarnar staðsettar í Amsterdam, Barcelona, Genf, Kaupmannahöfn, Mílanó, París, Tallinn, Zagreb og á Blönduósi. Þar verður sett á fót miðstöð nýsköpunar og þekkingar í stafrænni textílframleiðslu sem byggð er á menningararfi og handverkskunnáttu íslenskra kvenna með sérstakri áherslu á ull og umhverfisvæna nýtingu hennar.

Verkefnið hófst 1. september 2020 og stendur yfir í þrjú og hálft ár. og segir í tilkynningunni að því verði stýrt frá Mílanóborg en verkefnisstóri er Roberto Nocerino. Þorgerður J. Einarsdóttir mun ásamt Laufeyju Axelsdóttur, nýdoktor í kynjafræði, kanna og kortleggja umgjörð, bakgrunn og sögu textíliðnaðar á Íslandi. Í því felst að skoða núverandi landslag á sviði textíls, þróun í sögulegu samhengi, samfélagslegt umfang og mikilvægi, menningarlegar rætur og kynjasjónarmið. Skoðað er hvernig hefðir og menningararfleifð geta verið innblástur og hvati til endursköpunar á nýjum tímum og í nýju samhengi. Meðal annars er spurt hvernig textíllinn og handverkið geta tekið skrefið inn í framtíðina á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir