Formaður knattspyrnudeildar Tindastóls hættir
Ómar Bragi Stefánsson, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, mun ekki gefa kost á áframhaldandi setu á formannsstóli. Ómar hefur í 25 á eða, frá árinu 1991, stýrt deildinni við góðan orðstír. Hann segir að nú sé mál að linni og nýir taki við keflinu en framundan er stjórnarfundur knattspyrnudeildarinnar.
Ómar segir að öll verkefni hafi verið skemmtileg, kannski misskemmtileg. Gaman hafi verið þegar vallarsvæðið breyttist í það sem það er í dag og gamli malarvöllurinn hvarf af svæðinu. Baráttan fyrir bættri aðstöðu í áraraðir, segir Ómar hafa líklega verið það leiðinlegasta þar sem skilningsleysið hafi stundum verið algjört. „Held samt að nú sé að rofa til í þeim málum og trúi því að gervigrasvöllur sé handan við hornið.“ Ómar segir þá leikmenn sem hafa verið með Tindastóli í gegnum árin hafi verið misjafnir eins og þeir eru margir en langflestir frábærir. Þá þykir honum gaman að sjá hvað kvennaboltinn hefur vaxið og er á góðum stað og eins m.fl. karla sem vann frábært afrek sl. sumar. „Trúi því að það séu bjartir tímar framundan hjá fótboltanum og hvet fólk til að koma í stjórn og vinna að þessu skemmtilega verkefni.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.