Fór bara út í fótbolta þegar hann var búinn að lesa allar bækurnar á bókasafninu

Gunni alveg eldhress. MYND: GASSI
Gunni alveg eldhress. MYND: GASSI

Það þekkja allir Gunna Helga, enda margir eftirminnilegir kappar með því nafni. Bók-haldið er hins vegar búið að banka stafrænt upp á hjá rithöfundinum, leikaranum og leikstjóranum Gunnari Helgasyni í Hafnarfirði. Það er sjaldnast einhver lognmolla í kringum hann og það er rétt með naumindum að hann nái að svara spurningum Feykis í tæka tíð – hann er nefnilega eitthvað að sprella með Ladda og félögum.

Margir hafa sennilega alist upp við Gunna og Felix síkáta í Stundinni okkar og þeir félagar gáfu að auki út bráðvinsælar barnaplötur. Og ófáir hafa lesið barna- og unglingabækurnar hans Gunna þar sem hann hefur oftar en ekki hitt í mark; við gætum nefnt bækurnar um Gogga og Grjóna, fótboltabækurnar um Jón Jónsson og félaga þar sem Víti í Vestmannaeyjum, Aukaspyrna á Akureyri og Rangstæður í Reykjavík voru meðal titla, ekki má gleyma Mamma klikk!, Amma best og nú síðast Bannað að eyðileggja. Bækurnar eru orðnar eitthvað um tuttugu talsins.

Gunni er árgangur 1965 líkt og tvíburabróðir hans (!), fæddur í Reykjavík en ólst fyrst upp á Háaleitisbrautinni en flutti svo ungur í Glaðheima og gerðist Þróttari ári síðar. Nú er hann búinn að búa í Hafnarfirði í bráðum 30 ár. Hann lærði leiklist hér heima en segist nú vinna mest við að skrifa og leikstýra.

Þar sem Bók-haldið ber upp á í fermingarblaði Feykis er rétt að byrja á að spyrja Gunna hvað sé eftirminnilegast frá fermingardeginum hans. „Ég fermdist í Langholtskirkju. Man mest eftir því hvað það var gaman í veislunni þar sem ég fór með gamanmál í eldhúsinu við mikinn fögnuð. Eftirminnilegra er þó þegar ég skírðist þremur vikum áður. Kom of seint í eigin skírn því ég var á skíðaæfingu. Mamma var ekki hress.“

Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina? Það eru án efa bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna. Þar á eftir koma 60 kíló bækurnar tvær eftir bróður minn, Hallgrím Helgason. Í öruggu þriðja sæti eru bækur Einars Kárasonar um Sturlungaöldina.

Hvaða bók ertu að lesa núna? Nú er ég að lesa bókina Bróðirinn eftir Ármann Jakobsson.

Hvers konar bækur lestu helst? Barna- og unglingabækur. Reyni að fylgjast með því sem aðrir eru að skrifa hér heima ... já og erlendis.

Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn og af hvaða bók lærðir þú að lesa? Ég man ekkert af hvaða bók ég lærði að lesa. En eftir að ég fékk gleraugun og náði upp lestrarhraða las ég svona flest það sem til var á heimilinu. Mér fannst flest af því ekkert sérlega skemmtilegt. Það var ekki fyrr en ég var að verða níu ára að Jón Oddur og Jón Bjarni kom út að hausinn á mér sprakk. Eftir hana leit ég ekki til baka og las eins og vindurinn.

Hvaða bók er ómissandi eða er einhver ein bók sem hefur sérstakt gildi fyrir þig? Enn og aftur... Jón Oddur og Jón Bjarni. Bókin er náttúrulega um tvíbura sem eiga heima í blokk og það er unglingssystir og grænn jeppi. Allt eins og hjá okkur á þeim tíma. Það var bara eins og Guðrún Helgadóttir hefði skrifað bókina um okkur bræðurna.

Bíður þú spenntur eftir bókum frá einhverjum höfundi? Ég bíð spenntur eftir bókum frá Hallgrími bróður. Lengi fannst mér bækurnar hans of langar en síðustu fjórar hafa verið of stuttar. Ég get ekki beðið eftir að kafa ofan í sagnaheiminn hans og dvelja þar lengi, lengi.

Áttu þér uppáhalds bókabúð? Akademiska Bokhandling í Helsinki var mitt vín þegar ég starfaði sem mest þar. Hér heima er það Penninn Eymundsson í Hafnarfirði. Frábært starfsfólk í frábærri búð í okkar yndislega litla miðbæ.

Hversu margar bækur heldurðu að þú eignist árlega og lestu þær allar? Hmmm... ætli ég eignist ekki svona 5–8 bækur mánaðarlega. Ég hef ekki komist í að lesa þær allar. En ég reyni.

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni? Það er bókasafnið í Hafnarfirði. Bunkinn heima heldur þó aftur af mér. Þarf að fara oftar.

Hvaða bækur lestu fyrir börnin þín? Nú á ég bara uppkomin börn. En þegar strákarnir voru litlir var Ástarsaga úr fjöllunum og Mjóni Rauðrefur í uppáhaldi sem og Selur kemur í heimsókn. Ég gerðist áskrifandi að Disneyklúbbnum á sínum tíma og las þær til að byrja með en svo bara gat ég það ekki. Þetta var bara of mikið drasl.

Hvað þarf til að gera góða bók fyrir börn og ertu eldsnöggur að setja saman bók eða var einhver bókanna þinna löng og erfið fæðing? Ég hef tvisvar verið eldsnöggur að setja saman bók. Það helgaðist af því að söguþráðurinn kom til mín í einu lagi. En söguþráðurinn er alltaf það erfiðasta í skriftarferlinu. Þegar hann er kominn er ég ekki svo lengi að skrifa. Kannski þrjá mánuði. Bannað að eyðileggja sem kom út í fyrra var mjög erfið í fæðingu. Ég var ekki búinn með söguþráðinn þegar ég byrjaði að drita stöfum á diskinn. Ég vonaði bara að þetta myndi þróast og reddast við skrifin. Það gerðist ekki. Þannig að þegar ég var búinn að skrifa í tvo mánuði áttaði ég mig á því að þetta var drasl. Svo ég henti bókinni og byrjaði upp á nýtt. Og ákvað að taka viðtöl við fólk með þekkingu á ADHD. Það tók þrjár vikur. Og þá small þetta.

Er bókin Stungusending frá Stólastúlku ekki í smíðum? Merkilegt að þú skulir spyrja. En ... nei!

Hvað er skemmtilegast við að skrifa fyrir börn og unglinga? Að vera Guð. Rithöfundurinn ræður öllu í sínum bókum og er guðinn í skrifunum. Og svo er mjög gaman að nota klisjur og stíla sem aðeins hafa verið notaðir fyrir fullorðna. Ég get þá kynnt það fyrir ungum lesendum.

Hefur þú heimsótt staði sérstaklega vegna þess að þeir tengjast bókum sem þú ert að skrifa? Já, ég fer á alla staði sem ég skrifa um. Þegar ég skrifaði Barist í Barcelona sem dæmi fór ég í heimsókn til Barcelona FC og fékk leiðsögn um allt æfingasvæðið þeirra og húsið sem er kallað La Masia. Maður verður að þekkja það sem maður skrifar um.

Hver er eftirminnilegasta bókin sem þú hefur fengið að gjöf? 60 kíló af kjafst-höggum fékk ég senda með tölvupósti síðasta sumar frá Hallgrími bróður. Hann hefur ekki lagt það í vana sinn að leyfa mér að lesa bækurnar hans fyrir útgáfu. En þarna var ég veikur og fékk bókina senda. Ég prentaði hana út og las á tveimur dögum. Og henti mér svo í að lesa Sólskinið aftur. Ógleymanlegir dagar.

Hvað er best með bóklestri? Ró og friður.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu? Það fer alveg eftir því hver manneskjan er. En ég gef nú fullt af fólki mínar bækur á hverju ári. En sumir vilja reyfara á meðan aðrir vilja eitthvað þyngra.

Manstu hvaða bækur þú fékkst helstar í fermingargjöf, fékkstu of mikið af einhverri bók? Ég fékk eintómar ljóðabækur. Man eftir bókunum með ljóðum eftir Þorstein Eggertsson og Grím Thomsen. Get nú varla sagt að þetta hafi slegið í gegn hjá mér 13 ára.

Hvers konar bækur varstu helst að lesa í kringum fermingaraldurinn? Myndasögubækur, Ævintýrabækurnar, Fimm bækurnar og bara allt sem ég kom höndum yfir. Ég var fastagestur á Sólheimabókasafninu og man þegar ég kláraði það einn daginn. Var búinn að lesa allt sem var í boði. Þá fór ég bara út í fótbolta.

Manstu hvaða hug þú hafðir til fermingarinnar þegar þú fermdist? Já, ég taldi mér trú um að ég væri trúaður. En það var geggjað að fá gjafirnar og veisluna.

- - - - -
Farið var yfir Bók-hald Gunna Helga í Fermingar-Feyki í byrjun apríl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir