Fólk í sóttkví í öllum póstnúmerum Norðurlands vestra
Fátt hefur breyst í samantekt aðgerðastjórn almannavarnadeildar Norðurlands vestra frá því fyrir helgi þar sem sami fjöldi er nú í einangrun á svæðinu eða átta alls en í sóttkví fjölgaði um einn og eru því alls 39 einstaklingar sem sæta henni og í fyrsta sinn í þessari bylgju faraldursins í öllum póstnúmerum á Norðurlandi vestra.
Alls eru sex í einangrun í dreifbýli Skagafjarðar, annars vegar fimm í póstnúmeri 551 og einn í 561 en tveir aðilar á Hvammstanga þar sem flestir sæta sóttkví eða ellefu manns. Næstflestir eru í dreifbýli Húnaþings eða fimm manns, fjórir í póstnúmeri 551, sami fjöldi í Fljótum og þrír á Sauðárkróki. Ýmist eru einn eða tveir í sóttkví í öðrum póstnúmerum Norðurlands vestra.
Á landsvísu eru 905 einstaklingar í einangrun, 2.023 í sóttkví, 72 á sjúkrahúsi og þrír á gjörgæslu. Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru 16 látin.
Upplýsingafundi almannavarna var að ljúka rétt í þessu en þar hvatti Víðir fólk til að halda áfram að gæta að sóttvörnum og eins og fyrr að samstaðan sé besta sóttvörnin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.