FNV áfram á lista yfir fyrirmyndarstofnanir
Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu – hefur kynnt úrslit í vali á fyrirmyndarstofnun ársins 2021. Ein stofnun á Norðurlandi vestra komst á lista yfir slíkar stofnanir í flokki ríkis- og sjálfseignarstofnana en það var Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra sem hafnaði í fjórða sæti yfir fyrirmyndarstofnanir með 40-89 starfsmenn.
Valið fer þannig fram að valin er stofnun með hæstu heildareinkunn sem uppfyllir þátttökuskilyrði úr þremur stærðarflokkum og bera þessar þrjár stofnanir heitið „Stofnun ársins.“ Stærðarflokkarnir eru; stofnanir með færri en 40 starfsmenn, stofnanir með 40-89 starfsmenn og stofnanir með 90 eða fleiri starfsmenn.
Í frétt á vef Sameykis segir: „Í flokki meðalstórra stofnana eru fyrirmyndarstofnanirnar einnig fimm, auk Menntaskólans á Egilsstöðum eru það Ríkisendurskoðun, Fjölbrautarskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Skógræktin sem fá sæmdarheitið „fyrirmyndarstofnun“. Allar þessar stofnanir voru í flokki stórra stofnana í síðustu mælingu, nema Menntaskólinn á Egilsstöðum. Ríkisendurskoðun var þá í fjórða sæti, Fjölbrautarskólinn í Garðabæ í öðru sæti, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra var í þriðja sæti og Skógræktin í því níunda.“
Stofanirnar þrjár sem reyndust sigurvegarar í sínum flokkum voru; Heilsustofnun NLFÍ sem sigraði í flokki stórra stofnana, Menntaskólinn á Egilsstöðum í flokki meðalstórra stofnana og Jafnréttisstofa reyndist hlutskörpust í flokki minnstu stofnananna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.