Flestir hlynntir gerð 10 km vegganga undir Öxnadalsheiði
Í skoðanakönnun sem Gallup vann fyrir Samgöngufélagið, dagana 5. júlí til 8. ágúst sl. um vegamál á Norðurlandi, kemur fram að af sex tilgreindum valkostum voru flestir hlynntir gerð 10 km vegganga undir Öxnadalsheiði, 66% voru hlynnt gerð vegar um Húnavallaleið en 11,5% andvíg.
Tvær spurningar voru bornar undir íbúa á Norðurlandi sem varða vegamál í landshlutanaum.
Önnur spurningin var sem hér segir: „Hér fyrir neðan eru nokkrar leiðir til breytinga á vegsamgöngum milli Norðausturlands og suður- og vesturhluta landsins. Vinsamlegast merktu við þá tvo kosti sem þú telur vænlegast að ráðist verði í.“ (Fyrir aftan hvern kost er hundraðshluti þeirra sem merktu við hverja leið í könnuninni.)
• Gerð 10 km vegganga undir Öxnadalsheiði (40,7%).
• Gerð nýs vegar um svonefnda Húnavallaleið sunnan Blönduóss (36,0%).
• Gerð 15 til 20 km vegganga undir Tröllaskaga milli Sauðárkróks og Akureyrar (30,4%).
• Lækkun vegar um Holtavörðuheiði (30%).
• Uppbygging Kjalvegar milli Blöndudals austan Blönduóss og Gullfoss (22,8%).
• Gerð nýs vegar um svonefnda Vindheimaleið sunnan Varmahlíðar í Skagafirði (13,9%).
• Enga af ofantöldum (7,4%).
Önnur spurning var svohljóðandi: “Hversu hlynntur eða andvígur ert þú gerð vegar, svonefndrar Húnavallaleiðar sunnan Blönduóss, sem styttir leiðina milli Norðausturlands og suður- og vesturhluta landsins um allt að 14 kílómetra?”
Svör voru sem hér segir: Alfarið hlynntur - 29,2%, Mjög hlynntur - 18,7%, Frekar hlynntur - 18,4%, Hvorki hlynntur né andvígur- 22,2%, Frekar andvígur 3,4%, Mjög andvígur 2,4%, Alfarið andvígur - 5,7%.
785 einstaklingar 18 ára og eldri búsettir á Norðurlandi, nánar til tekið í póstnúmerum 530-691 eða Húnavatnshreppi til Vopnafjarðarhrepps, voru valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup. Fjöldi þeirra sem svöruðu var 425 en 360 svöruðu ekki. Þátttökuhlutfall var því 54,1%.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.