Fjórði sigurleikur Kormáks/Hvatar í röð

Kormákur/Hvöt sigraði sinn fjórða leik í röð þegar að þeir lögðu lið Breiðhyltinga, KB, af velli á Blönduósi á laugardaginn. Leikurinn fór 3:1 fyrir heimamönnum en þeir skoruðu öll sín mörk á fyrsta hálftíma leiksins. KB menn minnkuðu síðan muninn um miðjan seinni hálfleik en það dugði ekki til. 

Það var George Razvan Chariton sem skoraði fyrsta mark húnvetninga á 13. mínútu en þetta var hans þriðja mark í sumar. Á 23. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu sem Ingvi Rafn, spilandi þjálfari, tók og klúðraði. Markvörður breiðhyltinga virtist þó hafa þjófstartað á línunni og var því spyrnan tekin aftur og þá skoraði Ingvi Rafn, rétt skal vera rétt. Kormákur/Hvöt fengu síðan aðra vítaspyrnu á 30. mínútu. Fleiri fengu að sitja að borðinu og fékk því Akil Rondel Dexter De Freitas að taka þá spyrnu. Akil skoraði úr henni og þar með sitt fjórða mark í deildinni. Breiðhyltingar minnkuðu metin á 71. mínútu í seinni hálfleik en þar var á ferðinni Eyþór Guðmundsson. Fleiri urðu mörkin ekki og fjórði sigurleikur húnvetninga í röð því staðreynd. 

Samkvæmt aðdáendasíðu Kormáks/Hvatar, hefur liðið ekki tapað heimaleik í 24 leikjum í röð. Húnvetningar sitja í þriðja sæti D-riðils fjórðu deildar með 12 stig, jafn mörg stig og Vængir Júpíters í því öðru. Lið Léttis situr á toppi deildarinnar með 13 stig og ljóst er að toppbaráttan verður spennandi í sumar. 

Næsti leikur Kormáks/Hvatar er gegn Hvíta Riddaranum og fer leikurinn fram í Mosfellsbæ laugardaginn 19. júní klukkan 14.

/SMH


 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir