Fjöll gránuðu í nótt á Norðurlandi
Ekki fylgja hlýindi björtustu dögum ársins á Norðurlandi en svo vildi til að í fjöll snjóaði í nótt, a.m.k. í Skagafirði. Áframhaldandi kuldi er í kortunum framundan og væta af og til en upp úr helgi má búast við að úr rætist með hita yfir tíu stigunum.
Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan 5-13 m/s og rigningu með köflum á spásvæði Stranda og Norðurlandi vestra fram á morgun. Hvassast verður við sjóinn og hiti 4 til 7 stig. Á heimasíðu Vegagerðarinnar má sjá að við Blönduós og á Þverárfjallsvegi er vindhraði um 12 m/s en vindhviður allt að 17 m/s nú klukkan 9.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Norðlæg átt 5-13 m/s, hvassast austast. Lítilsháttar væta á Norðausturlandi, skýjað austanlands, en yfirleitt bjart sunnan heiða. Hiti 3 til 13 stig, hlýjast á Suðausturlandi.
Á sunnudag:
Norðlæg átt, 8-13 m/s. Rigning um austanvert landið en annars skýjað með köflum og þurrt. Hiti 4 til 12 stig, hlýjast á Suðurlandi.
Á mánudag:
Norðlæg eða breytileg átt og væta í öllum landshlutum. Hiti 7 til 12 stig.
Á þriðjudag:
Norðaustanátt og víða skúrir. Heldur hlýrra.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustlæga eða breytilega átt með dálitlum skúrum á víð og dreif. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast sunnanlands.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.