Fjöldi starfa í rækjuiðnaði í hættu

Atvinnuveganefnd fjallar nú um frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða þar sem lagt er til að kvótasetja úthafsrækju að nýju og að skipta hlutdeildinni þannig að þeir sem stundað hafi veiðar frá því að veiðar voru gefnar frjálsar árið 2010  fái nú 30% en þeir sem höfðu hlutdeild fyrir þann tíma fái 70 %. Þetta má kallast „Salomonsdómur“ því engar leiðbeiningar fylgja með á hvaða forsendum þessi niðurstaða ráðherra er fengin.

Atvinnuveganefnd fékk Lagastofnun Háskóla Íslands til  meta hugsanlega bótaskyldu ríkisins miðað við 70/30 % skiptinguna og komst hún að þeirri niðurstöðu að hvorugur aðilinn eigi tilkall til bóta að hálfu ríkisins vegna fyrirliggjandi frumvarps. Ennfremur er það sjónarmið sett fram í álitinu að sú ákvörðun að gefa rækjuveiðar frjálsar hafi verið ólögmæt á sýnum tíma en um það eru mjög skiptar skoðanir á meðal lögmanna og ekkert sem sker endanlega úr um það nema niðurstaða dómstóla og hafa báðir aðilar talað fyrir því að láta á það reyna.

Minna má á í þessu sambandi fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða sem segir  að „ nytjastofnar í sjónum sé sameign þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarétt einstakra aðila yfir veiðiheimildunum“ . Stjórnvöldum hverju sinni er því að sjálfsögðu heimilt að ákvarða með lögum stjórn veiða og nýtingu stofna sem ekki eru nýttir eins og raunin var með úthafsrækjuna árin fyrir 2010.

Miklar áhyggjur eru eðlilega hjá forsvarsmönnum og starfsfólki þeirra fyrirtækja sem hafa verið að byggja upp rækjuvinnslu og veiðar frá því að rækjuveiðar voru gefnar frjálsar árið 2010 . Allt bendir til þess að afleiðingar frumvarpsins verði þær að ekki verði hægt að halda uppbyggingu og starfsemi áfram með sama hætti og verið hefur og uppsagnir með tilheyrandi byggðaröskun blasi við í kjölfarið ef frumvarpið verður óbreytt að veruleika.

Slíkt má  ekki gerast.Með því væri verið að slá út af borðinu fjölda starfa sem byggst hafa upp í kringum rækjuiðnaðinn á síðustu árum eins og t.d. hjá rækjuvinnslunni Kampa ehf og fleiri fyritækjum í vinnslu og veiðum frá því að veiðar voru gefnar frjálsar. Rækjuiðnaður á Íslandi á sér langa sögu og sú saga hófst með frumkvöðlastarfi á Ísafirði en í dag eru 6 verksmiðjur starfandi í landinu og byggja  á úthafsrækju,innfjarðarrækju og innfluttri rækju í mismunandi hlutföllum eftir stöðum.

Miklar sveiflur hafa verið í greininni og þannig voru veiðar á árunum fyrir 2010  ekki taldar nógu hagkvæmar af ýmsum orsökum. Stór hluti veiða á þeim árum byggði á leigu á aflamarki því  handhafar aflamarksins nýttu það mjög takmarkað. Hvaða skynsemi felst í því að afhenda fyrrverandi kvótahöfum svo hátt hlutfall aftur upp í hendurnar þar sem langflestir hafa ekki nýtt sýnar heimildir í fjölda ára og ekki nema lítill hluti þeirra eftir að veiðar voru gefnar frjálsar. Eðlilegt er að þeir sem hafa verið starfandi í greininni og nýtt hafa veiðiheimildir sýnar og/eða byggt  upp veiðireynslu undanfarin ár hafi áfram rekstrargrundvöll og sú mikla þekking sem til staðar er og byggst hefur upp á löngum tíma glutrist ekki niður vegna geðþótta ákvarðanna stjórnvalda.

Ég er inná því að stokka þurfi upp þessa úthlutun eins og allt kvótakerfið og byggt sé á nýtingaleyfum við ríkið og að komið verði í veg fyrir að útgerðir liggi með ónýttar aflaheimildir eða geri út á leigubrask. Telja má víst að afkoma greinarinnar  í dag beri ekki há veiðigjöld og er  því mikilvægt að veiðigjaldanefnd komi með rökstuddar tillögur þar að lútandi til ráðherra en það ber henni að gera lögum samvæmt og taka til skoðunar þær tegundir sem ekki eru líklegar til að bera umtalsverð veiðigjöld, eða jafnvel alls ekki nein.

Það er ekki síður mikilvægt að verja þau störf sem fyrir eru á landsbyggðinni eins og það að skapa ný atvinnutækifæri en þetta virðist því miður stundum gleymast.

Ég hef talað fyrir málamiðlun innan Atvinnuveganefndar um  50/50 % hlutfallsskiptingu úthafsrækju milli eldri rétthafa og þeirra sem veitt hafa úthafsrækju frá því að veiðar voru gefnar frjálsar og tel að með þeirri niðurstöðu og aukinni veiðiskyldu væri þeim sem virkir hafa verið í veiðum og vinnslu undanfarin ár gert kleift að starfa áfram.

Nú reynir á samstöðu þingmanna Norðvesturkjördæmis um að standa vörð um þennan mikilvæga iðnað svo koma megi í veg fyrir að fjöldi starfa tapist og sú mikla þekking sem byggst hefur upp á löngum tíma hjá starfsfólki í greininni.  Vonandi á rækjuiðnaðurinn bjartari tíma framundan og þá er mikilvægt að standa með því fólki sem leggur sig fram um að þróa þennan iðnað og gefst ekki upp þó á móti blási af náttúrulegum orsökum en verra er það ef það er af mannavöldum.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður Norðvesturkjördæmis.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir