Fjöldi mætti í Héraðsdóm Norðurlands vestra í morgun til að sýna Sveini Margeirssyni stuðning
Fjöldi fólks sýndi Sveini Margerssyni stuðning með nærveru sinni í sal Héraðsdóms Norðurlands vestra í morgun er mál Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra gegn honum var tekið fyrir. Þar var á ferðinni hið umdeilda örsláturhúsmál þar sem sex lömbum var lógað í tilraunaskini á bænum Birkihlíð í Skagafirði og selt á bændamarkaði á Hofsósi 30. september 2018 að frumkvæði Sveins sem þá var starfandi forstjóri Matís.
Fyrirtakan stóð stutt yfir þar sem Sveinn óskaði eftir því að fá frest til skila á greinagerð. Jafnframt upplýsti Sveinn að hann hygðist verja sig sjálfur þar sem hann hafi ekki fundið lögfræðing eftir að sá sem hafði tekið málið að sér hætti vegna mögulegra hagsmunaárekstra og taldi sig því vanhæfan.
„Ég sé mér þann eina kost færan að verja mig sjálfur og óska í því samhengi eftir því að ganga frá skriflegri greinagerð og þá leggja fram þau gögn sem ég tel að verði mér til aðstoðar í þeirri vörn sem ég mun leggja upp með, sagði Sveinn áður en Halldór Halldórsson, héraðsdómari, veitti frestinn fram í janúar 2020.
Sveinn sagði þann stuðning sem fólk hafi sýnt honum við Héraðsdóm í morgun frábæran og er þeim þakklátur er sáu sérfært að mæta. „Það er mikill styrkur fyrir mig að fá þennan stuðning og mér finnst það ekki síst sýna þann kraft sem er í bændum og hvað hægt er að gera þegar men fá leyfi til að haga hlutum eins og best er,“ sagði Sveinn í samtali við Feyki.
Á dögunum sendi Félag sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu áskorun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtaka Íslands og Matís ohf. þar sem hvatt var til þess að niðurstöður örslátrunarverkefnis Matís, verði birtar og ásamt því að skorað var á þar til bæra aðila að rýmka og einfalda reglur fyrir heimaslátrun og sölu afurða.
Sveinn segist ekki þekkja til þess hvort fleiri félög ætli sér að styðja hann í þessari baráttu en hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi einstaklinga víða um land.
„Margir sauðfjárbændur og fólk sem stendur að verðmætasköpun í hinum dreifðu byggðum Íslands skilja mikilvægi málsins þannig að það kæmi mér ekkert á óvart þá að einhverjir fleiri myndu láta í sér heyra hvað þetta mál varðar sérstaklega“
Málið Lögreglustjórans á Norðurlandi vestra gegn Sveini verður tekið fyrir að nýju þriðjudaginn 14. janúar 2020 klukkan 13:30.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.