Fjárhagsáætlun Svf. Skagafjarðar samþykkt með átta atkvæðum

Sveitafélagið Skagafjörður hefur samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2009. Í bókun meirihlutans kemur fram að í ljósi stöðunnar telji meirihlutinn betra að búa við tímabundinn hallarekstur en að skera niður í mannafla og framkvæmdum.
Í bókunn meirihluta segir; -Jafnhliða gerum við okkur ljóst að enn frekar þarf að hagræða og ná fram betra veltufé frá rekstri. Ákveðið hefur verið að endurskoða áætlunina í apríl og tíminn fram að því nýttur til þess að fara enn ítarlegar yfir skipulag þjónustu og reksturs, ekki verður lengur heimilt að ráða í störf, sem losna, án samþykktar og allir kostnaðarliðir endurskoðaðir.  Til þessarar vinnu verður farið í samvinnu við starfsmenn sveitarfélagsins. Sveitarstjóra og starfsmönnum sveitarfélagsins, sveitarstjórnarfulltrúum og nefndafólki eru færðar þakkir fyrir þá miklu vinnu sem fram hefur farið og þann árangur, sem nú þegar hefur náðst við hagræðingu milli umræðna.
Niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar 2009 fyrir aðalsjóð eru rekstrartekjur 2.622.078 þús.kr. og rekstrargjöld 2.738.305 þús.kr., fjármagnsliðir jákvæðir um 125.810 þús.kr.  Rekstrarniðurstaða 9.583 þús.kr. rekstrarafgangur.
 
Niðurstöðutölur A hluta sveitarsjóðs:
Tekjur 2.560.988 þús.kr., gjöld 2.588.550 þús.kr., fjármagnsliðir neikvæðir um 147.947 þús.kr.  Rekstrarniðurstaða A hluta er neikvæð um 175.510 þús.kr.
Fjárfesting A hluta er áætluð 455.213 þús.kr. og  ný lántaka 450.000 þús.kr.
 
Niðurstöðutölur B hluta sveitarsjóðs:
Tekjur 393.289 þús.kr., gjöld 256.126 þús.kr., fjármagnsliðir neikvæðir um 177.453 þús.kr.  Rekstrarniðurstaða B hluta er neikvæð um 40.290 þús.kr.
Nettó fjárfesting B hluta er áætluð 73.843 þús.kr.
 
Áætluð rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins og stofnana á árinu 2009 er neikvæð um 215.800 þús.kr.  Handbært fé frá rekstri 349.376 þús.kr. Fjárfestingarhreyfingar samtals 529.056 þús.kr.  Afborganir og breytingar lána og skuldbindinga 251.755 þús.kr.  Nýjar lántökur 450.000 þús. kr.  Handbært fé í árslok 115.777 þús.kr.

Fjárhagsáætlun var samþykkt með 8 atkvæðum en Bjarni Jónsson VG sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Páll Dagbjartsson lagði fram bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
 
„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa tekið þátt í gerð þessarar fjárhagsáætlunar af fullri ábyrgð. Við teljum það skyldu okkar allra, kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa, að vinna sameiginlega að rekstri sveitarfélagsins og standa vörð um velferð okkar íbúa. Þrátt fyrir ólíkar áherslur í einstökum málum teljum við áætlunina ásættanlega miðað við ástand mála eins og það er í dag.“

Þá kvaddi Bjarni Jónsson sér hljóðs og lagði fram bókun:
 
„Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2009 er á ábyrgð þeirra flokka er mynda meirihluta sveitarstjórnar, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að skuldir sveitarfélagsins verði tæpir 5 milljarðar í lok næsta árs. Skuldaaukning um tæpar þúsund milljónir frá árslokum 2006.
Gert er ráð fyrir að veltufé sveitarsjóðs frá rekstri verði rúmar 272 milljónir króna á þessu ári og neikvætt um 14 milljónir króna á næsta ári.
Eiginfjárhlutfall 17% í lok þessa árs og 9% í lok ársins 2010. Í árslok 2010 er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall sveitarfélagsins A og B hluta verði einungis 4%. Eigið fé er nánast upp urið, þannig að með óbreyttum rekstri og fjárfestingastefnu stefnir  sveitarfélagið í fjárhagslegt þrot. Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur yfirstjórn sveitarfélagsins vaxið umfram margt annað. VG situr hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir