Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps afgreidd

Hreppsnefnd Húnavatnshrepps kom saman þann 20. janúar og m.a. þess sem fór fram var síðari umræða um fjárhagsáætlun hreppsins. Þar kom fram að tekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar rúmlega 315 milljónir, gjöld eru áætluð rúmlega 311 milljónir en rekstrarhagnaður tæplega 2,5 milljónir.

 

Sitt sýndist hverjum þegar til afgreiðslu á fjárhagsáætlun kom en fulltrúar minnihlutans létu bóka að fjárhagsstaða sveitarfélagsins hefði versnað til muna á milli ára og að rekstur hefði breyst til hins verra í valdartíð meirihlutans. Bygging húsnæði á Húnavöllum væri algjör tímaskekkja, sýnt væri að enginn hagnaður yrði af byggingu leiguíbúða og þörfin engin. Nær væri að leggja meiri metnað í að viðhalda núverandi byggingum og hlúa að atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Fulltrúar minnihlutans lýstu sig mótfallna steinsteypustefnu meirihlutans og töldu að betur mætti fara með fé sveitarfélagsins.

 

Meirihlutinn taldi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 ætti ekki að koma minnihlutanum á óvart þar sem hún hafi verið unnin í góðri samvinnu beggja aðila. Það ætti heldur ekki að koma þeim á óvart að rekstur sveitarfélagsins vesni í því ástandi sem nú sé í þjóðfélaginu. Gert sé ráð fyrir því að framlög frá Jöfnunarsjóði skerðist um allt að 19 milljónum, gjaldskrá hafi nær ekkert verið hækkuð, gert sé ráð fyrir gjaldfríum leikskóla 2009 og áframhaldandi viðhaldi Húnavallaskóla. Varðandi áframhaldandi uppbyggingu á Húnavöllum, telur meirihlutinn m.a. brýnt að byggja parhús sem lið í styrkingu samfélagsins, eins og það er orðað í bókun meirihlutans.

 

Fjárhagsáætlunin var samþykkt með fimm atkvæðum meirihlutans en fulltrúar minnihlutans sátu hjá í atkvæðagreiðslunni.  

Heimild Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir