Fimm þúsund Feykismyndir skrásettar á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga
Þeim áfanga var náð á dögunum í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga að allar ljósmyndir sem voru í eigu Feykis hafa verið skráðar. Að sögn Sveins Sigfússonar, starfsmanns safnsins, voru þær rétt um fimm þúsund talsins og tók verkið vel á annað ár.
„Þetta eru myndir sem komu frá Þórhalli Ásmundssyni, fyrrverandi ritstjóra, og voru frá upphafi útkomu Feykis 1981 til aldamóta,“ útskýrir Sveinn sem skráð hefur myndirnar undanfarin misseri en Sigrún Fossberg, fv. starfsmaður safnsins, hóf skráninguna fyrir einhverjum árum.
Sveinn segir einstaka myndir hafa verið merktar en annars fór hann inn á Tímarit.is og reyndi að finna í hvaða blaði myndirnar birtust til að sjá hverjir voru á myndinni og hvert tilefnið var.
„Þó maður þekkir einhvern, hús eða eitthvað, þá langar mann til þess að komast að því af hvaða tilefni myndin væri í blaðinu. Skráningin gekk í fáum orðum út á þetta.“
Einhverjar myndir voru einnig í safninu sem ekki birtust í blaðinu og segir Sveinn að töluvert hafi vantað upp á það að ná öllu en nú sé ljósmyndasafnið aðgengilegt á netinu, sjá HÉR.
Skemmtilegt verkefni
„Já, það er mjög gaman að grúska í gömlum myndum og líka hvað maður var fljótur að kveikja í fólki sem maður taldi að vissi eitthvað um myndirnar og áhuginn hjá því vaknaði.“
Þar sem þessu verkefni er lokið bíður það næsta og segir Sveinn horfa til safnsins hans Stebba Ped en þar má finna nokkra tugi þúsunda mynda. En þegar Feykir náði tali af Sveini fyrir helgi var hann að skrá myndasafn sem kom frá Erlu Gígju Þorvaldsdóttur. Hann segir mikið um myndagjafir á safnið, sérstaklega úr dánarbúum og vill hann koma því á framfæri að ef fólk á gamlar myndir að endilega skrifa aftan á þær til að auðvelda skráningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.